Tveir hjálparstarfsmenn Rauða krossins héldu til Haítí í dag

28. apr. 2010

Tveir sendifulltrúar Rauða kross Íslands héldu til Haítí í dag til starfa á sjúkrahúsi þýska og finnska Rauða krossins í Carrefour í úthverfi Port-au-Prince. Þar með verða fimm starfandi íslenskir hjálparstarfsmenn á Haíti, en alls hafa 17 íslenskir sendifulltrúar unnið að neyðarviðbrögðum Alþjóða Rauða krossins eftir jarðskjálftann mikla í janúar.

Þetta er í fyrsta sinn sem þau Ruth Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og Bjarni Árnason læknir starfa á vettvangi fyrir Rauða kross Íslands, en þau sóttu bæði alþjóðlegt námskeið fyrir sendifulltrúa sem haldið var í mars. Ruth starfar sem skurðhjúkrunarfræðingur á Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði en Bjarni er sérnámslæknir í bráðalækningum á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi.

Sjúkrahús Rauða krossins er staðsett við íþróttaleikvang í Carrefour, einu fátækasta úthverfi höfuðborgarinnar, en þar hafa tugþúsundir manna leitað skjóls við mjög slæmar aðstæður. Mörg hundruð sjúklingar leita sér aðstoðar þar á hverjum degi, og þar er nú fjölsóttasta fæðingardeild sjúkrahúsa í Port-au-Prince. Að meðaltali fæðast þar um 100 börn í hverjum mánuði. Fimm íslenskir sendifulltrúar hafa starfað við þetta sama sjúkrahús.

Fyrir eru þrír hjálparstarfsmenn Rauða kross Íslands á Haítí: Valgerður Grímsdóttir hjúkrunarfræðingur sem starfar við tjaldsjúkrahúsi norska Rauða krossins í Petit Goave; Birna Halldórsdóttir sem vinnur að dreifingu hjálpargagna Alþjóða Rauða krossins; og Kristjón Þorkelsson sem er margreyndur sendifulltrúi Rauða kross Íslands á sviði vatnshreinsimála.

Sigurjón Valmundsson, sjúkraflutningamaður og bráðatæknir, er nýkominn heim frá Haítí, en hann starfaði líkt og Valgerður við tjaldsjúkrahús norska Rauða krossins. 

Sjá myndir á Fésbókinn: Aðstoð Rauða kross Íslands á Haítí