Enn ríkir neyð á Haítí, sex mánuðum eftir skjálftann

11. júl. 2010

Rauði krossinn minnist þess nú að á morgun, mánudaginn 12. júlí, verða sex mánuðir liðnir frá jarðskjálftanum mikla á Haítí, einum mannskæðustu náttúruhamförum um áratugaskeið. Sendifulltrúar Rauða kross Íslands sem hafa verið á Haítí komu saman í höfuðstöðvum félagsins í dag, sunnudag,  til að ræða ástandið á jarðskjálftasvæðinu.

Alls hafa 25 hjálparstarfsmenn Rauða kross Íslands starfað á Haítí og þar eru fimm nú við lækningar, hjúkrun og stjórn verkefna á sviði vatnsöflunar og hreinlætis.

Að minnsta kosti 223.000 manns létu lífið í skjálftanum og 300.000 slösuðust. Rauði krossinn hóf samstundis dreifingu hjálpargagna sem voru í vöruskemmum á staðnum en síðan hófst einhver umfangsmesta hjálparaðgerð samtakanna sem um getur.

Rauði kross Íslands hefur tekið þátt í aðgerðunum frá upphafi með mannafla, fjárstuðningi og sendingu hjálpargagna. Sendifulltrúar félagsins hafa hjúkrað slösuðum, skipulagt hjálparstarfið, stjórnað dreifingu matvæla og unnið að útvegun vatns og salerna í flóttamannabúðum í og við höfuðborgina Port-au-Prince.

Stjórnvöld og almenningur á Íslandi hafa stutt hjálparstarfið með fjárframlögum, fyrirtæki gáfu eða veittu afslátt af margvíslegum hjálpargögnum og utanríkisráðuneytið lagði til flugvél undir vöruflutninga, þá sömu og náði í Alþjóða björgunarsveitina þegar verki hennar var lokið á Haítí.

Ein og hálf milljón manna er enn heimilislaus á Haítí vegna jarðskjálftans. Rigningatímabilið stendur yfir og margir hafa einungis plastdúka til skjóls. Búist er við að það taki að minnsta kosti ár, og líklega fleiri, að koma öllum í bráðabirgðahúsnæði.

Þrátt fyrir það hefur gengið vel að útvega og dreifa matvælum, vatni og efni til að gera einfalt skýli fyrir veðri og vindum. Á þessum sex mánuðum hafa 135.000 manns fengið læknisaðstoð hjá Rauða krossinum, rúmlega 150.000 verði bólusettir gegn algengum sjúkdómum, og samtökin dreifa daglega vatni í tankbílum til 285.000 manna.

Nánar um hjálparstarfið á Haítí hér.