Hungursneyð í Níger

23. júl. 2010

Alþjóða Rauði krossinn hefur hækkað neyðarbeiðni sína vegna hungursneyðar sem nú geisar í Vestur-Afríkuríkinu Níger. Rauði krossinn kallar eftir 400 milljónum íslenskra króna til að veita 385,000 manns lífsnauðsynlega aðstoð.

Rauði krossinn kallaði eftir fjármagni í mars vegna þurrka og uppskerubrests í Níger, en hefur nú þrefaldað neyðarbeiðnina vegna síversnandi ástands í landinu. Talið er að allt að 3,3 milljónir manna þurfi á matvælaaðstoð að halda, eða rétt tæplega helmingur íbúa landsins.

 
Hungursneyðin kemur verst niður á börnum undir 5 ára aldri. Gífurlegur fjöldi barna þjáist nú af næringarskorti, og er óttast að ástandið versni til mikilla muna ef ekki tekst nógu fljótt að veita nauðsynlega aðstoð.

”Lífsskilyrði fjölda fjölskyldna hafa versnað til mikilla muna,” segir Mamane Issa, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Níger. “Fæstir hafa efni á að kaupa matvæli – vegna þess hve verðlag er hátt og fólk hefur einnig misst vinnu sína út af uppskerubrestinum.”

Síðan í mars hafa sjálfboðaliðar Rauða krossins í Níger veitt íbúum 210 þorpa aðstoð í samvinnu við Matvælahjálp Sameinuðu þjóðanna (WFP). Sjálfboðaliðarnir hafa dreift matvælum til um 100,000 manns síðustu mánuðum.