Rauði kross Íslands sendir 3,5 milljónir vegna neyðarástands í Pakistan

3. ágú. 2010

Rauði kross Íslands hefur ákveðið að senda 3,5 milljónir króna úr neyðarsjóðum sínum til hjálparstarfs vegna gífurlegra flóða í norð-vesturhluta Pakistans. Rauði krossinn hefur einnig opnað fyrir söfnunarsíma sinn 904 1500 fyrir þá sem vilja styrkja hjálparstarfið.

Þetta eru verstu flóð sem orðið hafa í Pakistan í manna minnum. Yfirvöld segja að um 2,5 milljónir manna hafi orðið fyrir áföllum af völdum flóðanna og að 1.500 hafi farist. Enn er spáð úrfelli á þessum slóðum og er óttast að kólera kunni að breiðast út með menguðu vatni þar sem mannfjöldi hefur safnast saman til að leita sér skjóls.

„Dreifing á hreinu vatni og hreinlætisaðstaða fyrir þá sem hafast við í tjaldbúðum eru forgangsatriði núna ef takast á að koma í veg fyrir að fólk verði fyrir nýjum hamförum af völdum farsótta,” segir Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands.

Sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Pakistan hafa lagt dag við nótt við dreifingu hjálpargagna síðan flóðin hófust fyrir um 10 dögum. Þá hafa heilsugæslulið Rauða hálfmánans verið að störfum í þeim héruðum sem verst hafa orðið úti. Þúsundir manna hafa orðið innlyksa vegna flóðanna og er óttast að það taki langan tíma að ná til allra sem á aðstoð þurfa að halda.

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent út neyðarbeiðni vegna flóðanna sem hljóðar upp á 1,9 milljarða íslenskra króna. Rauði krossinn hyggst aðstoða um 250.000 manns á næstu mánuðum.

Rauði krossinn minnir á söfnunarsíma sinn 904 1500 fyrir þá sem vilja leggja hjálparstarfinu í Pakistan lið. Þegar hringt er í númerið bætast við 1.500 kr. við næsta símreikning. Einnig er hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.