Múlasnar ferja hjálpargögn Rauða krossins til fórnarlamba flóða í Pakistan

6. ágú. 2010

Flóðin í Pakistan hafa heldur færst í aukana síðustu daga og hættan eykst enn á flóðasvæðunum í suðurhluta landsins þar sem 350.000 manns hafa nú verið fluttir frá heimilum sínum. Sameinuðu þjóðirnar áætla að allt að 4,5 milljónir hafi orðið fyrir áföllum af völdum flóðanna og æ fleiri þurfi nú á aðstoð hjálparsamtaka að halda.

Erfitt hefur reynst að koma hjálpargögnum til einangraðra fjallaþorpa í norðvesturhluta Pakistan. Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hafa gripið til þess ráðs að nota múlasna til að ferja matvæli og önnur hjálpargögn til örvæntingarfullra íbúa á þessu svæði.

Sjálfboðaliðar pakistanska Rauði hálfmánans hafa unnið ötullega að dreifingu hjálpargagna til afskekktra fjallahéraða sem hafa verið algerlega einangruð í viku vegna flóðanna. Ófært er til margra þessara svæða nema fótgangandi og því reynst ógerlegt að koma matvælum og öðrum vistum til þeirra 25.000 íbúa sem þar búa. Með því að nota múlasna hefur Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum tekist að koma hjálpargögnum þangað, en engin önnur hjálparsamtök starfa á þessum slóðum.