Tafarlausrar aðstoðar þörf í Pakistan

12. ágú. 2010

Ekkert lát hefur verið á úrfellinu vegna monsúnrigninga í Pakistan, og er nú um 70% af öllu landinu undir vatni. Talið er að um 14 milljónir manna hafi orðið fyrir áföllum vegna flóðanna, og að um 6 milljónir þurfi á tafarlausri aðstoð að halda eigi íbúar að lifa hamfarirnar af á næstu vikum. Þetta eru verstu flóð í sögu landsins.

Alþjóða Rauði krossinn kallar nú eftir enn meira fjármagni í neyðarbeiðni sína sem hljóðar upp á tvo milljarða íslenskra króna. Rauði kross Íslands hefur þegar sent 3,5 milljónir króna úr neyðarsjóðum sínum til hjálparstarfsins og hefur einnig opnað fyrir söfnunarsíma sinn 904 1500 fyrir þá sem vilja styrkja neyðaraðstoðina.

Sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Pakistan hafa lagt dag við nótt við dreifingu hjálpargagna síðan flóðin hófust, og hafa þegar náð til um 100.000 íbúa. Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hafa notast við múlasna til að ferja hjálpargögn til einangraðra fjallaþorpa, þar sem mjög víða er ófært á flóðasvæðunum. Þá hafa heilsugæslulið Rauða hálfmánans veitt um 30.000 manns í afskekktum héruðum læknisaðstoð.

Mikil hætta er á kólerufaraldri þar sem hreinlætisaðstaða er mjög bágborin í tjaldbúðum fyrir fórnarlömb flóðanna. Þegar hefur borið á magakveisum og húðsýkingum vegna skorts á hreinu vatni. Uppskera hefur víða brostið vegna flóðanna og hefur matarverð rokið upp úr öllu valdi. Föstumánuður múslíma, Ramadan, hófst í gær, og hefur það einnig áhrif á hjálparstarfið.

Framkvæmdastjóri Alþjóða Rauða krossins, Bekele Geleta, kom til Pakistans í dag til að kynna sér ástandið í landinu og sýna Rauða hálfmánanum í Pakistan stuðning. Tæp fimm ár eru liðin frá jarðskjálftanum mikla í norðvesturhluta landsins en þá þurftu milljónir manna á neyðaraðstoð að halda.

Rauði krossinn minnir á söfnunarsíma sinn 904 1500 fyrir þá sem vilja leggja hjálparstarfinu í Pakistan lið. Þegar hringt er í númerið bætast 1.500 kr. við næsta símreikning. Einnig er hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.