Rauði krossinn fjórfaldar neyðarbeiðni vegna flóðanna í Pakistan

19. ágú. 2010

Alþjóða Rauði krossinn fjórfaldaði í dag neyðarbeiðni sína vegna flóðanna í Pakistan og kallar nú eftir 8.2 milljörðum íslenskra króna til hjálparstarfsins. Neyðaraðstoð Rauða krossins og Rauða hálfmánans mun ná til um 900.000 íbúa á flóðasvæðunum.

Rauði kross Íslands opnaði fyrir söfnunarsíma sinn 904 1500 strax í kjölfar flóðanna fyrir þá sem vilja styrkja neyðaraðstoðina. Einnig er hægt að styðja neyðarbeiðnina á vefsíðunni. Félagið hefur þegar sent 3,5 milljónir íslenskra króna úr neyðarsjóði sínum í hjálparstarfið.

„Þetta eru einar verstu hamfarir sem geisað hafa á þessu svæði. Milljónir manna þurfa á tafarlausri hjálp að halda,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. „Hér þurfa allir að leggjast á eitt til að sýna samhug í verki, hjálparstofnanir, stjórnvöld og almenningur til að  koma í veg fyrir að tugþúsundir manna láti lífið af völdum flóðanna.”

Óttast er að kólerufaraldur brjótist út þar sem hreinlætisaðstaða er mjög bágborin á flóðasvæðunum og vatnsból menguð. Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hafa sent út neyðarsveitir sem vinna að hreinsun vatns, dreifingu matvæla, segldúka og tjalda auk þess sem læknasveitir fara um héruð þar sem enga heilsugæslu er að fá.

Þegar hringt er í söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500 bætast 1.500 kr. við næsta símreikning. Einnig er hægt er að styrkja hjálparstarfið með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.


Pakistan "Superflood" á You Tube