Haítí: Styrkur til að sinna grunnþörfum

10. sep. 2010

Hin 60 ára Maríe Elide Mimot íbúi í Automeca tjaldbúðunum í Port-au-Prince, fékk á dögunum smáskilaboð frá breska Rauða krossinum sem sögðu að hún ætti rétt á fjárstyrk að upphæð 250 dollara, eða 11 þúsund krónur íslenskar. Það eina sem hún þurfti að gera til að nálgast styrkinn var að fara í einn af mörgum Unitransfer bönkum á svæðinu, sýna persónuskilríki sín og smáskilaboðin.

Þetta er fyrsta af þremur skiplögðum styrkveitingum til 3.000 heimila í Automeda tjaldbúðunum sem breski Rauði krossinn mun veita næstu tvö árin. Til þess nýtir Rauði krossinn sér tæknina, og lætur skjólstæðinga sína vita í gegnum smáskilaboð í farsímum viðkomandi.

Þessi fyrsta styrkveiting er veitt án skuldbindinga og gerir fólki kleift að sinna grunnþörfum. Seinni styrkveitingar eru ætlaðar til að byggja upp atvinnutækifæri og mun breski Rauði krossinn styðja við uppbygginguna og veita þjálfun. 

Maríe hefur búið í Automeca tjaldbúðunum síðan daginn eftir jarðskjálftann. Hún bjó í Dalmas héraði, rétt hjá tjaldbúðunum, sem varð illa úti í skjálftanum. Heimili Marie gjöreyðilagðist. Það varð henni til lífs að hún var stödd í matvörubúð þegar ósköpin dundu yfir.

„Ég var leigjandi í húsinu og með þessum styrk get ég borgað leiguna sem ég skulda,“ segir María. 

Marie hefur einnig önnur áform: „Ég bý með þremur barnabörnum og með þeim peningum sem ég hef fengið frá breska Rauða krossinum get ég borgað skólagjöld fyrir Nadine, sem er 13 ára.  Ég á ekki fyrir skólagjöldum þeirra allra en það er bót í máli að Nadine getur farið í skóla.“

„Ég þakka Guði fyrir þessa aðstoð. Ég er mjög fegin að fá þessa peninga. Guð talaði við okkur og við sögðum honum að þetta er það sem við þyrftum. Ég bið þess að þeir sem sendu okkur þessa peninga lifi vel og lengi.“