Samtakamáttur til stuðnings Afríku skilar árangri

Önnu Stefánsdóttur formann Rauða kross Íslands

29. sep. 2010

Vandi Afríku er mikill. Alnæmi dregur unga foreldra til dauða og talið er að allt að 12 milljónir barna séu munaðarlaus af völdum sjúkdómsins. Mikil almenn fátækt og margs konar sjúkdómar gera það að verkum að börn ganga sjálfala og lenda oft á götunni.  Mörgum þessara barna er hægt að hjálpa. Fjármunum sem safnast í landssöfnun Rauða krossins Göngum til góðs er meðal annars varið til aðstoðar þessum börnum. Þó að þrengt hafi að hér á landi eru þrengingar fólks sem Rauði krossinn styður í Afríku svo alvarlegar að allt sem við getum lagt af mörkum skiptir máli.

Rauði kross Íslands hefur um árabil unnið að hjálparstarfi í Afríku. Félagið hefur byggt athvörf fyrir börn sem líða vegna alnæmis eða stríðsátaka, komið á fót heilsugæslu og aðstoðað fjölskyldur til sjálfshjálpar. Allt starfið er unnið í mikilli samvinnu við heimafólk sem veit best hvar neyðin er mest. Þörfin á hverjum stað er skilgreind af heimamönnum og verkefnin sniðin eftir henni. Hlutverk Rauða kross Íslands er að leggja til fjármagn, veita ráðgjöf og fylgjast með að samningum sé framfylgt af heimafólki. Á þann hátt eru íbúar studdir til sjálfshjálpar.

Mikið hefur áunnist,  meðal annars með þessum langtímastuðningi Rauða kross Íslands.  Í fyrsta sinn frá því alnæmisfaraldurinn breiddist út í Afríku sýna tölur Sameinuðu þjóðanna að nýsmitun í 22 ríkjum Afríku sunnan Sahara hefur minnkað um meira en fjórðung milli áranna 2001 og 2009.  Þetta þýðir að þrotlaust forvarnarstarf Rauða krossins og annarra aðlla til þess að hefta útbreiðslu almæmis með breyttri hegðun meðal ungs fólks hefur borið árangur.

Laugardaginn 2. október næstkomandi býður Rauði krossinn landsmönnum að ganga með sér til góðs til stuðnings bágstöddum og berskjölduðum bræðrum og systrum í Afríku. Þetta er í sjötta sinn sem efnt er til slíkrar söfnunar. Alls staðar á  landinu hafa fjölskyldur og vinir sameinast í göngunni og safnað fjármunum sem varið er til alþjóðaverkefna Rauða kross Íslands. Með þátttöku í Göngum til góðs, hvort sem er með því að ganga eða gefa, sýnum við samstöðu með þeim sem höllum fæti standa. Markmiðið er að ganga í öll hús á landinu.

Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að taka þátt í Göngum til góðs undanfarin ár. Jákvæðnin og samtakamáttur fólks sem gerst hefur sjálfboðaliðar í eina til tvær klukkustundir einn dag hefur verið með eindæmum. Ánægjulegast hefur verið að fylgjast með börnunum sem stolt og glöð afhenda baukana sem þau hafa safnað í með fjölskyldum sínum, vitandi að þau hafa gengið til góðs til hjálpar börnum í Afríku.

Ég hvet Íslendinga til að ganga til góðs með Rauða krossinum á laugardaginn. Sérstaklega eru foreldrar, ömmur og afar hvött til að taka börnin með og leyfa þeim að taka þátt í skemmtilegu verkefni.