Tók á móti 75 sjúklingum fyrsta daginn í vinnunni

10. nóv. 2010

Lilja Óskarsdóttir sendifulltrúi Rauða kross Íslands hefur hafið störf sem hjúkrunarfræðingur í alþjóðlegu teymi Rauða krossins í Larkana í Sindh héraði í Pakistan sem fór illa í flóðunum miklu í ágúst.

Lilja sendi Rauða krossinum tölvupóst í dag til að láta vita að allt gengi vel og sagði að þennan fyrsta dag í starfi sínu hefðu 75 manns mætt í færanlega sjúkrastöð Rauða krossins.

„Það var mjög skemmtilegt að taka þátt í að setja upp flotta aðstöðu, taka á móti 75 sjúklingum og taka svo allt saman aftur og pakka niður fyrir næsta stað," sagði Lilja í pósti sínum.

„Hér er enn mikið vatn en fólk er samt farið að snúa heim og byggja upp a ný," sagði hún og lýsti ánægju sinni með samstarfsfólk og heimafólk sem hún segir ótrúlega elskulegt.

Í kjölfar flóðanna sem urðu í landinu í ágúst hefur teymið veitt yfir 3.500 manns í Sindh héraði heilbrigðisþjónustu. Um 6.000 börn og 2.000 fullorðnir hafa fengið sálrænan stuðning.

Rauði kross Íslands mun styðja hjálparstarf Alþjóða Rauða krossins í Pakistan um alls 11,5 milljónir íslenskra króna. Þar af koma fjórar milljónir króna frá utanríkisráðuneytinu, fjórar milljónir frá íslenskum almenningi og deildum félagsins og 3,5 milljónir úr Hjálparsjóði Rauða krossins, sem sendar voru í upphafi neyðarástandsins.