Norræn Rauða kross félög skora á ríkisstjórnir sínar að leiða bann við kjarnavopnum

14. des. 2010

Landsfélög Rauða krossins á Íslandi, í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð afhentu í gær forsætisráðherrum landa sinna áskorun um að beita sér í sameiginlegu átaki fyrir því að kjarnavopnum verði útrýmt í heiminum í samræmi við mannúðarhlutverk Rauða krossins og grundvallarmarkmið alþjóðlegra mannúðarlaga. Skorað er á ríkisstjórnir Norðurlandanna að leiða ferli um undirritun alþjóðasamnings sem feli í sér bann við notkun, þróun, birgðasöfnun og flutningi á kjarnavopnum.

Anna Stefánsdóttir formaður Rauða kross Íslands og Kristján Sturluson framkvæmdastjóri gengu á fund Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í gær og afhentu henni sameiginlega yfirlýsingu norrænu Rauða kross félaganna.

Jóhanna Sigurðardóttir fagnaði þessu framtaki Rauða krossins á Norðurlöndum, og sagði þessa áskorun samrýmast vel þeim markmiðum sem sett hafa verið á oddinn í málflutningi Íslands á alþjóðavettvangi og í utanríkisstefnu Íslands. Forsætisráðherra hét því jafnframt að taka áskorun Rauða krossins upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins útskýrði að mikilvægasta markmið alþjóðlegra mannúðarlaga, sem Rauði krossinn stendur vörð um með eftirfylgni Genfarsamninganna, kveði á um vernd þeirra sem ekki taka beinan þátt í átökum. Kjarnavopn séu þannig í eðli sínu í andstöðu við þessi kerfisbundnu lög um siðferðileg mörk í hernaði.  

„Kjarninn í rökræðum um kjarnavopn verður alltaf að snúast um fólk, um grundvallarreglur alþjóðlegra mannúðarlaga og um sameiginlega framtíð mannúðar í heiminum,” sagði Anna.

„Notkun kjarnavopna beinist ekki að eyðingu hernaðarlegra mannvirkja eða gegn stríðandi aðilum heldur er almenningur fórnarlömb þeirra.  Þetta stríðir gegn ákvæðum Genfarsamninganna.”

Í sameiginlegri yfirlýsingu norrænu Rauða kross félaganna segir að í þróun mála á alþjóðavettvangi undanfarin ár felist nú sögulegt tækifæri til að hraða því ferli að útrýma kjarnavopnum úr heiminum, og því beri að nýta þetta mikilvæga augnablik í sögunni.

Unnið verði að því að tryggja að umræða um kjarnavopn verði forgangsatriði á fundi Fulltrúaráðs Rauðakrosshreyfingarinnar í nóvember 2011. Alþjóðaráðstefna Rauða krossins og Rauða hálfmánans, sem ríki heims eiga aðild að og fylgir í kjölfarið, veiti þjóðum heims enn frekara tækifæri til að ræða næstu skref byggð á markmiðum alþjóðlegra mannúðarlaga og á að takmarka þjáningar fólks í hernaði.

Jafnframt heita Rauða kross félögin því að veita norrænu ríkisstjórnunum allan þann stuðning sem þörf er á í baráttunni fyrir því að kjarnavopnum í heiminum verði útrýmt.

Í morgun samþykkti ríkisstjórn að fela utanríkisráðherra að fylgja málinu eftir í samstarfi við starfssystkini sín á Norðurlöndum.