Bjartar vonir um góða uppskeru stuðningshópa í Malaví

1. feb. 2011

Stuðningshópar alnæmissmitaðra í Chiradzulu eru himinlifandi yfir góðum spretti maísins sem þeir plöntuðu í nóvember. Rigningarnar hafa verið stöðugar þetta árið og ef fram heldur sem horfir verður úrvalsuppskera í mars.

Hins vegar verða næstu vikur erfiðar og hungurvofan er ekki langt undan. Uppskeran í fyrra var nefnilega rýr og margir eru þegar orðnir uppiskroppa með maísmjöl.

„Þorpsbúar hjálpast að þannig að ef ein fjölskylda á ekki mat þá hjálpa aðrar fjölskyldur til með því til dæmis að bjóða þeirri matarlitlu upp á íhlaupavinnu," segir Henry, starfsmaður Rauða krossins í Chiradzulu.

Henry vinnur við alnæmisverkefni sem Rauði kross Íslands hefur stutt frá árinu 2002 í Malaví, þéttbýlasta ríki Afríku.

Rauði kross Íslands hjálpaði stuðningshópum í Chiradzulu í fyrra til þess að rækta maís og grænmeti í því skyni að gera fólki kleift að halda hreysti. Flest er fólkið á alnæmislyfjum, en þau gera miklu minna gagn þegar langvarandi svengd minnkar mótstöðuafl líkamans gegn ýmsum sjúkdómum.

Rýr uppskera 2010 er áhyggjuefni - en ef rigningarnar halda í nokkrar vikur enn ætti næsta uppskera að vega upp á móti áfallinu í fyrra.

Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands heimsótti stuðningshóp í Mangulawa þorpi í síðustu viku. Í hópnum eru 50 manns - þar af fimm karlmenn - og þeir voru ekki lítið stoltir af uppskerunni.

Rauði krossinn útvegar þeim land, útsæði og áburð en sjálf sjá þau um alla vinnu við að planta, hirða og skera upp. Í samvinnu við yfirvöld landbúnaðarmála í Malaví hefur verið beitt ýmsum nýjum aðferðum við landbúnaðinn. Einkar athyglisvert er hversu garður stuðningshópsins ber af görðunum í kring. Maísplönturnar eru bæði stærri, grænni og glæsilegri á allan hátt.