Brennandi áhugi sjálfboðaliða Rauða krossins í Mangochi

Þóri Guðmundsson, sviðsstjóra alþjóðasviðs Rauða kross Íslands

22. feb. 2011

Hannock Masanga formaður Mangochi deildar malavíska Rauða krossins er stoltur af sínu fólki. Alls 2.500 sjálfboðaliðar í 47 undirdeildum sinna víðtæku hjálparstarfi á svæði þar sem þarfirnar eru miklar en Rauða krossinum þröngur stakkur skorinn. Í héraðinu búa 700.000 manns. „Við þjálfum sjálfboðaliða í skyndihjálp, veitum neyðaraðstoð eftir hamfarir og aðstoðum þá sem minnst mega sín," segir Hannock. „Fjarlægðir eru samt okkar helsta vandamál; það er dálítið langt að hjóla allt að 60 kílómetra til að aðstoða fólk vegna flóða."

Þeir styðja munaðarlaus börn, meðal annars með því að greiða skólagjöld, kaupa matvörur fyrir þá sem minnst mega sín og hjálpa fötluðum. Þá veita þeir ýmsan stuðning sem ekki krefst fjárútláta eins og að hjálpa til við ræktun og uppskeru hjá einstaklingum sem af einhverjum ástæðum megna það ekki. Fé til hjálparstarfsins kemur að mestu af félagsgjöldum og árlegum söfnunum sem tengjast alþjóðadegi Rauða krossins, 8. maí.

Deildin í Mangochi á engan bíl. Fimm reiðhjól sem deildin fékk frá vinadeild sinni - Hafnarfjarðardeild Rauða kross Íslands - eru fararskjótar sjálfboðaliða þegar fara þarf langar leiðir. Mótorhjól kæmi sér vel.

Rauði kross Íslands og Þróunarsamvinnustofnun Íslands eru nú að undirbúa samstarf um heilbrigðismál í Mangochi héraði, þar sem ÞSSÍ hefur starfað um árabil. Hingað til hefur Rauði krossinn á Íslandi beint aðstoð sinni að tveimur öðrum héruðum í Malaví. Mangochi yrði því þriðja verkefni sem félagið styður í landinu. Starf Rauða krossins byggir á framlagi sjálfboðaliða og því er uppbygging deildarinnar í Mangochi lykilatriði við undirbúning verkefnisins. Með þjálfuðum sjálfboðaliðum má gera kraftaverk, líka í einu af fátækustu löndum heims.

Þörfin fyrir hjálparstarf Rauða krossins er augljós og verkefnalistinn langur. Alnæmi hefur höggvið djúpt skarð í mannlífið í Mangochi. Árleg flóð fara illa með akra og hús. Heilsugæsla er víða afar bágborin. Hvað heilsugæslu varðar er þó undantekning á. Það er í Monkey Bay, sem er hluti af Mangochi héraði. Þar hefur ÞSSÍ byggt glæsilegan spítala og tvær heilsugæslustöðvar. Meðal þess sem Rauði krossinn og ÞSSÍ eru að skoða er hvort sjálfboðaliðar Rauða krossins geti aðstoðað verðandi mæður sem koma til að fæða barn sitt á stöðvunum. Þessar konur koma stundum langt að og sumar bíða vikum saman eftir að fæða.

Óhugnanlega mikill mæðradauði í Malaví undirstrikar mikilvægi þess að hvetja konur til þess að fara á heilsugæslustöðvar til að fæða börn sín. Næstum tíunda hver kona lætur lífið af barnsförum.  „Við erum ekki óvön því að hjálpa til á sjúkrahúsum, sérstaklega þegar farsóttir eins og kólera ganga yfir," segir Hannock. „En við það eins og annað hamlar það okkur að hafa ekki farartæki, eins og til dæmis mótorhjól."

Þegar ég spjalla við Hannock og tíu meðstjórnendur hans í deildinni verður mér hugsað til viðtals við íslenskan bónda sem spurður var hver mesta framför í landbúnaði á ævi hans hefði verið. Gúmmískórnir, svaraði bóndinn á Íslandi.  Og hvað skyldi sjálfboðaliða Rauða krossins í Mangochi vanhaga um? Gúmmístígvél og regnkápur, er svarið. Það er svo erfitt að arka leðjuna stígvélalaus og illa til fara á rigningatímabilinu, þegar aðstoða þarf fólk sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín vegna flóða.

Hannock og félagar hans í stjórn deildarinnar tóku hugmyndum um verkefni í samvinnu malavíska Rauða krossins, Rauða kross Íslands og ÞSSÍ fagnandi. Slíkt verkefni myndi gera deildinni kleift að ná til mun fleiri en hingað til hefur verið hægt. Ekki er hægt að hugsa sér betra veganesti fyrir aukið íslenskt hjálparstarf í Malaví en brennandi áhugi sjálfboðaliðanna í Mangochi á að láta gott af sér leiða við erfiðar aðstæður.