Lóð á vogarskálarnar í baráttu gegn mansali

24. feb. 2011

Mansal er til í mörgum myndum. Konur eru seldar til kynlífsánauðar, verkafólk er sent í þrælavinnu og börnum er smyglað yfir landamæri í misjöfnum tilgangi. Stundum eru viðkomandi sendir nauðugir en oft er fólk tælt til að yfirgefa erfiðar aðstæður með von um betra líf annars staðar.

Fátækir íbúar landanna sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum eru í sérstakri hættu. Þar sem lífsskilyrði eru nöpur og horfur slæmar freistast ungt fólk til að láta ginnast af gylliboðum.

Rauði kross Íslands styður unga sjálfboðaliða í Gomel-héraði í Hvíta-Rússlandi við að fræða ungmenni um hættur mansals. Þá fá fórnarlömb mansals aðstoð þegar þau koma aftur heim, stundum eftir áralanga ömurlega vist erlendis.

Ungmenni eru frædd um hættuna á mansali með margvíslegum aðferðum. Fjölmiðlar eru hvattir til að fjalla um málið, hringborðsumræður haldnar, efnt til vitundarvakningar í skólum, veggspjöldum dreift og margvíslegar uppákomur nýttar til að ná til ungs fólks sem er í mestri hættu.

Þolendur mansals fá við heimkomu sálrænan stuðning, aðgang að lögfræðiaðstoð og beina hjálp til að koma undir sig fótunum á ný. Þá eru skipulagðir sjálfshjálparhópar þolenda, til að þeir geti notið styrks hver af öðrum.

Verkefnið er kostað af íslenskum stjórnvöldum til þriggja ára, samkvæmt samstarfsyfirlýsingu sem Rauði krossinn og utanríkisráðuneytið gerðu snemma árs 2010.

Rauði krossinn í Hvíta-Rússlandi heldur úti fimm miðstöðvum vegna baráttunnar gegn mansali, sem kallaðar eru Hjálpandi hendur. Aðstoðin frá Íslandi er við miðstöðina í Gomel, en það svæði varð fyrir mikilli geislun þegar Tsérnóbýl kjarnorkuverið sprakk. Kjarnorkuverið er handan landamæranna við Úkraínu.