Viðbúnaður í fjallahéruðum Kákasus

1. mar. 2011

Rauði kross Íslands er í samstarfi við danska Rauða krossinn og Rauða kross félög í Georgíu og Armeníu sem gengur út á að efla almannavarnir í Kákasuslöndunum. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu. Almannavarnir þessara landa hafa fram að þessu verið fremur bágbornar og löndin hafa átt erfitt með að takast á við afleiðingar náttúruhamfara.

Samstarfsverkefnið hófst árið 2010. Það nær til 72.000 íbúa og markmiðið er að efla hæfni og þrautseigju fólks til að takast á við tíðar náttúruhamfarir en sem dæmi má nefna að árið 1988 létust um 25.000 manns í öflugum jarðskjálfta í Armeníu.

Verkefnið felst meðal annars í því að efla viðbúnað og bæta þekkingu á neyðarvörnum og neyðaraðstoð. Íbúar í þessum heimshluta hafa löngum búið við vopnuð átök og náttúruhamfarir auk þess sem efnahagur er bágborinn og stjórnvöld misvel í stakk búin til að mæta þörfum þeirra.

Meðal þeirra verkefna sem lögð er áhersla á er að fá heimamenn til að kortleggja þau svæði í nærsamfélaginu sem viðkvæmust eru fyrir hamförum, með það að markmiði að draga úr líkamstjóni og skemmdum á mannvirkjum þegar hamfarir eiga sér stað. Stjórnvöld, almenningur og Rauði krossinn fá aðgang að nauðsynlegum bjargráðum til að bregðast við þörfum fólksins.

Sjálfboðaliðahópar verða þjálfaðir í skyndihjálp og sálrænum stuðningi. Skólabörn fá fræðslu í forvörnum. Þau verða til dæmis hvött til að gera heimilisáætlun með fjölskyldu og nágrönnum til að auka öryggi á heimilum sínum og læra hvernig best sé að bregðast við í kjölfar alvarlegra atburða.

Fulltrúi Rauða kross Íslands í samstarfsverkefninu er Herdís Sigurjónsdóttir almannavarnaráðgjafi en hún hefur um langt árabil starfað að neyðarvörnum fyrir félagið auk þess að vera sveitarfélögum til ráðgjafar um almannavarnamál.