Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn aðstoða fórnarlömb átaka í Líbýu

4. mar. 2011

Starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans vinna nú á vöktum allan sólarhringinn við að veita aðstoð innan Líbýu og við landamæri nágrannalandanna. Tugþúsundir flóttamanna streyma á hverjum degi til Egyptalands og Túnis þar sem Rauðakrosshreyfingin og fleiri mannúðarsamtök veita viðeigandi aðstoð.

Nokkur hundruð manns hafa látið lífið og þúsundir særst í átökum öryggissveita stjórnvalda og vopnaðra uppreisnarhópa sem brutust út um miðjan febrúar. Mikil neyð ríkir meðal almennings og tugþúsundir manna hafa flúið til Egyptalands og Túnis, sérstaklega erlent vinnuafl frá Asíu og ríkjum sunnan Sahara.

Ekkert lát hefur verið á átökum og loftárásum undanfarna daga. Mikil þörf er á aðstoð innan Líbýu næstu daga og vikur, sérstaklega ef átökin halda áfram og harðna.  Alþjóða Rauði krossinn hefur sent sérhæfða hjálparsveit, þeirra á meðal lækna og hjúkrunarfræðinga, til að aðstoða Rauða hálfmánann í Líbýu.

Í gær var skotið á tvo sjúkrabíla Rauða hálfmánans í Líbýu. Tveir sjálfboðaliðar særðust í árásinni. Annar sjúkrabíllinn brann til kaldra kola. Rauði krossinn hefur fordæmt atvikið og minnir stríðandi fylkingar á að hjálparstarfsmenn njóti sérstakrar verndar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum, og að sjúkir og særðir eigi rétt á öruggum flutningi og aðstoð á viðeigandi stöðum.

Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn aðstoðar einnig fólk sem flúið hefur átökin í Líbýu við að koma á tengslum við vini og ættingja .