Hægt að koma í veg fyrir kynferðisglæpi gegn konum í stríði segir Rauði krossinn á Alþjóðadegi kvenna 8. mars

8. mar. 2011

Því er oft haldið fram að kynferðisofbeldi gegn konum sé óumflýjanlegur fylgikvilli vopnaðra átaka en að mati Alþjóða Rauða krossins er það einfaldlega rangt. Rauði krossinn vill nota tækifærið á Alþjóðadegi kvenna þann 8. mars til að hvetja ríki heims að hvika hvergi í baráttunni gegn nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi sem eyðileggur líf kvenna á átakasvæðum.
 
„Kynferðisofbeldi gegn konum á tímum átaka gerist ekki sjálfkrafa,“ segir Nadine Puechguirbal, ráðgjafi Alþjóða Rauða krossins í málefnum kvenna og stríðs. „Slíkt ofbeldi er viðurstyggilegur glæpur, og því verður að sækja menn til saka fyrir verknaðinn. Gerendur myndu ef til vill halda aftur af sér ef þeir vissu fyrir víst að þeim yrði refsað fyrir gerðir sínar.“

Fjölmörg verkefni á vegum Rauða krossins um allan heim styðja konur sem orðið hafa fórnarlömb nauðgana og annarra kynferðisglæpa. Sem dæmi má nefna verkefni sem lúta að heilsufari kvenna, sálrænan stuðning og fjárstyrki. Rauði kross Íslands styrkir til að mynda athvarf í Síerra Leóne fyrir konur sem beittar voru ofbeldi á tímum borgarastyrjaldarinnar þar og sérstakar kvennamiðstöðvar sem reknar eru í Austur-Kongó en framlag sjálfboðaliða í landssöfnuninni Göngum til góðs árið 2008 rann til landsverkefna þar.

Kynferðisofbeldi í tengslum við vopnuð átök er skilgreint sem stríðsglæpur samkvæmt Genfarsamningunum. Ríkjum heims ber skylda til þess að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi og refsa gerendum. Til að það gerist þarf löggjöfin í viðkomandi landi að taka á slíkum glæpum.
 
Þeir sem bera vopn í átökum, hvort sem um ræðir hermenn í stjórnarher, hjá uppreisnarhópum eða friðargæsluliðum, skulu sjálfir koma í veg fyrir nauðganir og annað kynferðisofbeldi. Það þarf því að veita þeim rétta þjálfun og beita ströngum viðurlögum gegn þeim sem gerast sekir um slíka glæp.
 
„Því miður gerist það allt of oft að lög og reglur til verndar konum séu ekki virtar,“ segir Puechguirbal. „Þetta veldur því að ekki er refsað fyrir glæpi gegn þeim – og það er einmitt það sem verður að breytast.“