Rauði krossinn bregst við jarðskjálfta og flóðbylgju í Japan

11. mar. 2011

Japanski Rauði krossinn hefur unnið sleitulaust við aðstoð við fórnarlömb jarðskjálftans sem reið yfir Japan í dag kl. 14:46 að staðartíma og átti upptök sín undan austurströnd Japans. Rauði krossinn í Japan hefur á að skipa fjölbreyttum neyðarsveitum sem eru sérþjálfaðar í viðbrögðum við hamförum sem þessum. Ekki hefur borist beiðni frá japönskum yfirvöldum um alþjóðlega aðstoð. Að minnsta kosti 300 manns hafa látist og þúsunda er saknað.

Fjöldamörg lönd eru í hættu vegna flóðbylgju sem fylgdi í kjölfar skjálftans. Flóðbylgjuviðvörun hefur verið send út til allra ríkja sem liggja að Kyrrahafi, þeirra á meðal allra Kyrrahafseyja, Ástralíu, Nýjasjálands, Havaí, Indónesíu, Mið og Suður-Ameríku, og Mexíkó. Rauðakrosshreyfingin um allan heim er í viðbragðsstöðu vegna þessa og hefur Rauði kross Íslands beðið reynda sendifulltrúa sína að vera reiðubúnir reynist þörf fyrir hjálparstarfsmenn í einhverjum þeirra landa sem flóðbylgjan kann að skella á næstu klukkustundirnar.

Helga Bára Bragadóttir sendifulltrúi Rauða kross Íslands á svæðisskrifstofu Alþjóða Rauða krossins á Fídjieyjum segir mjög alvarlegt ástand skapast ef flóðbylgjan skellur á smáeyjum í Kyrrahafinu.

„Margar þessara eyja eru einungis um 4-5 metra yfir sjávarmáli og því enginn staður fyrir fólk að leita sér vars ef 6-10 metra há flóðbylgja flæðir þar yfir,” segir Helga Bára, sem unnið hefur að því að síðastliðin 3 ár að setja upp viðbúnaðarkerfi Rauða krossins í kjölfar hamfara á svæðinu.

Japanski Rauði krossinn sinnir leitarþjónustu fyrir fólk sem misst hefur tengsl við ástvini sína innan Japans. Aðstandendum hérlendis sem ekki hafa náð sambandi við vini eða ættingja í Japan er bent á að hafa samband við utanríkisráðuneytið. Rauði krossinn hefur einnig sent út leiðbeiningar þar sem fólk er hvatt til þess að reyna að ná sambandi við ástvini í gegnum síma, en nauðsynlegt geti verið að hringja mörgum sinnum því mikið álag er á símakerfinu. Eins er fólki bent á að nota netsamband og samfélagsvefinn Facebook.

Þeir sem eiga ættingja í Japan og eiga í erfiðleikum með að ná sambandi við þá geta fyllt út form á síðu Alþjóða Rauða krossins og reynt að ná sambandi með þeim hætti. Smellið hér.