Íslenskur sendifulltrúi við hjálparstörf á Fiji eyju

13. mar. 2011

„Hugur okkar er með þeim þúsundum manna sem hafa orðið fyrir skaða vegna jarðskjálftans og flóðbylgjunnar í Japan,“ segir Helga Bára Bragadóttir sendifulltrúi Rauða krossins á Fiji. „Sem betur fer fór ekki eins illa á Kyrrahafseyjunum eins og við óttuðumst í upphafi.“

Helga Bára hefur unnið á Kyrrahafssvæðinu að viðbúnaði fyrir hamfarir í á þriðja ár. Verkefnið miðar að því að fyrir hendi sé á hverjum stað kerfi sem auðveldar innstreymi hjálpargagna og fólks þegar neyðarástand skapast.

Samstundis og í ljós kom hvílíkur jarðskjálfti hafði orðið við Japan fóru Helga Bára og kollegar hennar að vinna að viðbúnaði á svæðinu. Í Kyrrahafi er fjöldi eyja sem liggja svo lágt að ef stór alda hefði skollið á þeim hefði hún getað skolað fólki á haf út.

Það var því handagangur í öskjunni þegar hafist var handa við að hringja í Rauða kross félögin á eyjunum. Þarna eru Norður-Maríana eyjar, Cook eyjar, Fiji eyjar þar sem Helga Bára starfar, Nýja Kaledónía, Kiribati, Míkrónesía, Palau, Papúa Nýja Gínea, Samoa, Sólomoneyjar, Tuvalu, Tonga og Vanuatu.

Víða flúði fólk strandsvæði upp í land. Annars staðar er engar hæðir að finna og lítið að gera annað en bíða. Alls staðar voru sjálfboðaliðar Rauða krossins settir í viðbragðsstöðu.

Þegar til kom reyndist flóðbylgjan ekki ná nema nokkurra tuga sentímetra hæð á flestum stöðum. Menn gátu því andað léttar.

Í Japan er ekki sömu sögu að segja. Þar hafa rúmlega 40 neyðarsveitir Japanska Rauða krossins verið sendar á flóðasvæðin.  Í þeim eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, skyndihjálparfólk og aðrir sem gegna hlutverk við þær aðstæður sem nú ríkja.

Stjórnvöld hafa opnað fjöldahjálparstöðvar í skólum, íþróttahúsum og sambærilegum byggingum.