Rauði krossinn tekur við framlögum vegna hamfaranna í Japan

14. mar. 2011

Rauði krossinn í Japan vinnur nú á sólarhringsvöktum við að veita aðstoð fyrir fórnarlömb hamfaranna miklu sem skóku landið síðastliðin föstudag. Japanski Rauði krossinn hefur áratuga reynslu af því að bregðast við hamförum sem þessum, jarðskjálftum og flóðbylgjum, jafnt innanlands sem utan. Rauði krossinn hefur þjálfað tugþúsundir starfsmanna og sjálfboðaliða á liðnum árum sem hafa nú verið virkjaðir til hjálparstarfa.

Sextíu og tvær neyðarsveitir japanska Rauða krossins sem skipaðar eru rúmlega 400 heilbrigðisstarfsmönnum hafa veitt aðstoð á hamfarasvæðunum frá því jarðskjálftinn reið yfir.  Rauði krossinn gegnir einnig lykilhlutverki við að dreifa hjálpargögnum, veita skyndihjálp og sálrænan stuðning.

Hjálpargögn verða send frá birgðastöð Alþjóða Rauða krossins í Kuala Lumpur til Japans um leið og ljóst er hver þörfin verður á næstu dögum. Hjálpargögnin eru fullbúin á flugvellinum í Kuala Lumpur. Frekari þörf verður svo metin jafnóðum eftir því sem afleiðingar hamfaranna skýrast.

Japanski Rauði krossinn hefur ekki sent út formlega neyðarbeiðni, en þiggur fjárframlög frá systurfélögum sínum í Rauðakrosshreyfingunni að svo stöddu. Rauði kross Íslands hefur opnað fyrir söfnunarsíma sinn 904 1500, og bætast þá 1500 krónur við næsta símreikning við hvert símtal. Einnig er hægt að styrkja neyðaraðstoð Rauða krossins með því að greiða inn á bankareikning 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649. Framlögin renna til hjálparstarfs Rauða krossins í Japan.