Engin orð yfir eyðilegginguna sem blasir við á hamfarasvæðunum

16. mar. 2011

Engin orð eru til að lýsa eyðileggingunni sem blasir við í bænum Otsuchi á norðaustur strönd Japans. Flóðbylgjan sem fylgdi í kjölfar stóra skjálftans þann 11. mars hefur engu eirt. Íbúar fengu hálftíma viðvörun áður en 10 metra há bylgjan skall á bænum og hreif með sér allt sem á vegi varð. Enn er 9.500 íbúa saknað af 17.500. Eldar brenna hvarvetna þar sem eldsneyti úr bílum og bátum lekur út í umhverfið, og þar sem gasleiðslur bæjarins hafa farið í sundur.

Formaður Alþjóða Rauða krossins og landsfélagsins í Japan, Tadateru Konoé er einnig orða vant. „Þetta er það versta sem ég hef séð á ferli mínum hjá Rauða krossinum. Þetta kveikir upp minningar um ástandið í lok seinni heimstyrjaldar þegar borgir eins og Tokýó og Osaka voru rústir einar eftir sprengjuárásir,” segir hann.

Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins í Japan vinna sleitulaust við að aðstoða fórnarlömb þessara miklu hamfara. tugir neyðarsveita heilbrigðisstarfsmanna eru á vettvangi til að veita veikum og særðum hjálp, dreifa hjálpargögnum og sinna þeim sem hafa misst ástvini og fjölskyldu.

Hiromi Kinno, hjúkrunarkona frá Miyako, er mætt í eina af mörgum fjöldahjálparstöðvum sem hýsa fólk sem misst hefur heimili sín. Hún stendur við skilti með Rauða kross skilaboðum frá fólki sem orðið hefur viðskila við ættingja og vini. Hiromi leitar að nafni foreldra sinna og ungs frænda sem ekkert hefur spurst til síðan flóðbylgjan skall yfir.

„Ég hef áhyggjur af því hvort þau hafi náð að flýja undan flóðbylgjunni. Ég hef ekki náð neinu sambandi við þau. Ég hef fylgdist með í sjónvarpinu hvað gerðist hér og ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Ég ímynda mér það versta því ég hef ekkert heyrt frá þeim síðan þetta gerðist,” segir hún.  „Ég var svo hjálparlaus að bíða bara og vona, þannig að ég varð að koma hingað sjálf og leita þeirra.”

Það er nístingskalt á nóttinni, um 5 stiga frost. Það er rafmagnslaust og símasambandslaust.  Þeir sem lifað hafa hamfarirnar af eru einangraðir og verða að þreyja erfiðar aðstæður. Það er erfitt að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér, að eygja von - en uppbyggingin mun taka við af neyðarástandinu sem nú ríkir.