Almenningur sýnir samstöðu og örlæti vegna hamfaranna í Japan

18. mar. 2011

Rauði krossinn í Japan hefur nú sent neyðarsveitir til allra héraða sem urðu hvað verst úti vegna jarðskjálftans mikla og flóðbylgjunnar sem kom í kjölfar hans fyrir einni viku, og hefur sett upp starfstöðvar þar sem fá eða engin önnur hjálparsamtök eru. Tæplega hálf milljón manna hefst við í bráðabirgðaskýlum eftir að hafa misst heimili sín eða verið flutt í burtu vegna geislunarhættu.

Íslenska þjóðin hefur brugðist vel við söfnun Rauða krossins vegna hamfaranna í Japan. Hátt í þrjár milljónir króna hafa safnast í gegnum söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500 og beinum framlögum á bankareikning 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649. Rauði krossinn hefur einnig fengið stuðning frá stórum hópi fólks sem tengist Japan og hefur vakið athygli á söfnun félagsins.

„Við erum mjög þakklát fyrir þá samstöðu og örlæti sem almenningur hefur sýnt Japan með því að styðja söfnun okkar,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.  „Framlög almennings renna óskipt til Rauða krossins í Japan. Landsfélag Rauða krossins þar hefur staðfest að söfnunarfé hvaðanæva úr heiminum verði notað til að byggja upp líf þeirra sem hafa orðið fyrir þungum áföllum vegna hamfaranna.”

Þá kynntu íslensk stjórnvöld að þau muni veita 10 milljónum króna til neyðaraðstoðarinnar. Framlag stjórnvalda rennur til fjársöfnunar Rauða kross Íslands til stuðnings Rauða krossinum í Japan samkvæmt tilmælum japanskra stjórnvalda þar að lútandi.

Rauði krossinn í Japan hefur virkjað um 115 neyðarsveitir og hundruð þúsunda sjálfboðaliða af þeim 2 milljónum sem eru á skrá hjá félaginu. Um 750 læknar og hjúkrunarfræðingar veita heilbrigðisþjónustu á vettvangi, og sjálfboðaliðar sinna dreifingu á mat, vatni og teppum.  Sjálfboðaliðar veita einnig sálrænan stuðning í fjöldahjálparstöðvum og gegna mikilvægu hlutverki við að sinna fólki sem býr í nágrenni við kjarnorkuverið í Fukushima.

Rauði krossinn hefur opnað sérstaka vefsíðu familylinks.icrc.org til að aðstoða aðstandendur við að koma á tengslum sem rofnað hafa við ástvini á hamfarasvæðunum. Vefsíðan er á ensku, japönsku, kínversku, kóresku og portúgölsku. Hægt er að senda fyrirspurnir um fólk í Japan auk þess sem þeir sem þar eru staddir geta látið ættingja og vini vita af sér með Rauða kross skilaboðum á síðunni.

Rauði kross Íslands minnir á söfnunarsímann 904 1500. Þegar hringt er í númerið bætast 1500 krónur við næsta símreikning. Einnig er hægt að styrkja neyðaraðstoð Rauða krossins með því að greiða inn á bankareikning 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649. Framlögin renna til hjálparstarfs Rauða krossins í Japan.