Hjálparstarf Rauða krossins í Japan stóreflt

25. mar. 2011

Rauði krossinn í Japan hefur stóreflt neyðaraðgerðir sínar fyrir fórnarlömb hamfaranna miklu sem riðu yfir landið fyrir hálfum mánuði. Rauði krossinn sinnir allri heilbrigðisþjónustu á vettvangi og í fjöldahjálparstöðvum á hamfarasvæðunum þar sem nálægt þrjú hundruð þúsund manns eru enn. Í neyðarsveitum Rauða krossins eru einnig sérfræðingar sem veita sálrænan stuðning og áfallahjálp.

Þá mun Rauði krossinn á næstu dögum vinna að bættum lífsgæðum þeirra sem þurfa að dvelja í fjöldahjálparstöðvum til langs tíma. Koma á upp heitum sturtum, dreifa hreinlætisvörum og bæta hreinlætisaðstöðu fólksins. Rauði krossinn hefur nú þegar dreift um 130.000 teppum  til nauðstaddra auk annarra hjálpargagna. Fatnaði verður dreift á næstunni, með sérstakri áherslu á þarfir ungra barna.

Rauði kross Íslands hefur safnað um 17 milljónum króna sem munu renna beint til hjálparstarfs Rauða krossins í Japan. Framlag íslenskra stjórnvalda nemur 10 milljónum króna, en almenningur hefur lagt fram um 7 milljónir króna.

Ýmsir hópar sem tengjast Japan hafa lagt söfnun Rauða krossins lið, og er félagið ákaflega þakklátt fyrir stuðninginn. Enn er tekið á móti framlögum í söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500. Þegar hringt er í númerið bætast 1500 krónur við næsta símreikning. Einnig er hægt að styrkja neyðaraðstoð Rauða krossins með því að greiða inn á bankareikning 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.