Plúsinn afhendir styrk til Haítí

30. mar. 2011

Sæunn Gísladóttir og Anna María Guðmundsdóttir fóru fyrir hópi sjálfboðaliða úr starfi Plússins, ungmennastarfi Kópavogsdeildar, og afhentu Þóri Guðmundssyni sviðsstjóra alþjóðasviðs og Sólveigu Ólafsdóttur sviðsstjóra útbreiðslusviðs hátt í fimmtíu þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði hópsins þann 19. mars síðastliðinn. 

Peningurinn verður nýttur til að styðja við börn á Haítí sem enn eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans sem reið yfir landið fyrir rúmu ári. Samanlagt hefur þá Plúsinn styrkt það verkefni um vel yfir hundrað þúsund krónur en þau lögðu einnig ágóða af markaði sínum á síðasta ári í sama verkefni.

Þórir lagði áherslu á að styrkurinn myndi nýtast afar vel enda væri enn mjög mikil þörf á áframhaldandi aðstoð í landinu. Haítí var bágstatt ríki fyrir skjálftann en núna væri uppbyggingarstarf í gangi og enn mikil þörf á aðstoð. Ekki megi heldur gleyma verkefnum sem fyrir eru þrátt fyrir ný og krefjandi verkefni sem Rauði krossinn hefur þurft að bregðast við.

Plúsinn er sérhannaður vettvangur fyrir fólk á aldrinum 16–24  ára til þess að taka þátt í sjálfboðnu starfi og hafa áhrif á samfélagið sitt með ýmsum hætti, með markmið og hugsjónir Rauða krossins að leiðarljósi. Ýmsir hópar eru starfsræktir innan Plússins, líkt og stýrihópur, fræðsluhópur og hönnunarhópur. Allar nánari upplýsingar má nálgast í síma 554 6626 eða á [email protected].