Öflugur jarðskjálfti skekur Japan mánuði eftir hamfarirnar miklu

8. apr. 2011

Þrír fórust í jarðskjálfta sem reið yfir norðausturhluta Japans í gær. Fjölda bygginga eyðilagðist, og 3,6 milljónir manna eru nú án rafmagns. Sjúkrahús japanska Rauða krossins er eina sjúkrahúsið á þessu svæði sem enn er starfhæft, og segja forsvarsmenn að hægt sé að knýja vararafstöðvar næstu þrjá daga, en þá þverri eldsneyti verði rafmagn ekki komið aftur á.  Gerist það mun hættuástand skapast í Miyagi héraði.

Þetta er veruleikinn sem blasir við íbúum Japans nú einum mánuði eftir að hamfarirnar miklu skóku landið þann 11. mars. Öflugir skjálftar hafa fylgt í kjölfarið, svo öflugir að ekki er hægt að tala um eftirskjálfta. Jarðskjálftinn í gær mældist 7,1 á Richter.

Rauði krossinn í Japan hefur sinnt hjálparstarfi frá fyrstu stundu, sérstaklega heilbrigðisþjónustu á vettvangi og í fjöldahjálparstöðvum á hamfarasvæðunum. Um 188.000 manns hafa misst heimili sín og hafast enn við í fjöldahjálparstöðvum eða hjá vinum og ættingjum. Í neyðarsveitum Rauða krossins eru einnig sérfræðingar sem veita sálrænan stuðning og áfallahjálp.

Rauði krossinn í Japan hefur einnig hafist handa við enduruppbyggingu á hamfarasvæðunum. Á næstu vikum og mánuðum mun Rauði krossinn taka þátt í að koma upp bráðabirgðahúsnæði fyrir fólk sem missti heimili sín og búa það nauðsynlegum heimilistækjum. Rauði krossinn áætlar að aðstoða um 300.000 manns með þessum hætti.

Alls hafa safnast um 18,5 milljónir króna í söfnun Rauða kross Íslands sem munu renna beint til hjálparstarfs Rauða krossins í Japan. Framlag íslenskra stjórnvalda nemur 10 milljónum króna, en almenningur hefur lagt fram um 8,5 milljónir króna.

Ýmsir hópar sem tengjast Japan hafa lagt söfnun Rauða krossins lið, og er félagið ákaflega þakklátt fyrir stuðninginn. Enn er tekið á móti framlögum í söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500. Þegar hringt er í númerið bætast 1500 krónur við næsta símreikning. Einnig er hægt að styrkja neyðaraðstoð Rauða krossins með því að greiða inn á bankareikning 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.