Menntaskólanemi gefur Rauða krossinum 50.000 krónur í nafni kærustunnar

11. apr. 2011

Hjalti Hilmarsson, menntaskólanemi í Garðabæ, kom kærustu sinni, Kristrúnu Höllu Helgadóttur, skemmtilega á óvart þegar hann gaf 50.000 krónur til Japanssöfnunar Rauða krossins í hennar nafni.

Hjalti segir að Kristrún Halla sé mikil áhugamanneskja um Japan og allt sem japanskt er. Hann var með féð á sérstökum reikningi og hafði hugsað sér að gleðja hana á einhvern hátt. Þegar til átti að taka fannst honum best að styðja þolendur jarðskjálfta og flóða í Japan í hennar nafni.

Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði Hjalta fyrir óeigingjarnt framlag. Það verður nýtt til að styðja þá sem urðu fyrir miklum búsifjum á hamfarasvæðinum.

Í dag er einn mánuður liðinn síðan jarðskjálftinn reið yfir. Rauði krossinn í Japan hefur þegar hafist handa við enduruppbyggingu og mun á næstu mánuðum taka þátt í að koma fólki, sem enn hefst við í neyðarskýlum, í bráðabirgðahúsnæði.

Hjalti fékk viðurkenningarskjal til staðfestingar þess að Kristrún Halla hefði gefið féð til söfnunarinnar. Starfsfólk félagsins kvaddi hinn unga og ástfangna Garðbæing, með viðurkenningarskjalið í hendi á leið til fundar við kærustuna – sem á þeim tíma vissi ekkert um þetta kærleiksríka framlag.