Sömdu lag og sungu til styrktar Japan

12. apr. 2011

Sjö músíkalskar stúlkur úr 5. og 6. bekk Hamraskóla í Grafarvogi komu syngjandi á landsskrifstofu Rauða krossins með 34.000 krónur sem þær söfnuðu til að styrkja fórnarlömb hamfaranna í Japan.

Fjárhæðina unnu þær sér inn með því að syngja lag, sem þær sömdu sjálfar, fyrir fólk gegn frjálsum framlögum. Umhyggjusemi stúlknanna skilar sér vel í textanum við lagið:

Það er land
sem er í hættu
því það lent´í jarðskjálfta
og ... svo skall á flóðbylgja
sem olli miklum skaða
þetta þúsund manna teymi
sem að geislar geta skaðað
þarf á þinni hjálp að halda.

Margt, margt smátt
getur veitt mikla hjálp!

Stúlkurnar heita: Anna Eva Steindórsdóttir, Embla Nanna Þórsdóttir, Gerður Sif Heiðberg, Helena Marína Salvador, Nína Lovísa Ragnarsdóttir, Ólavía Rún Grímsdóttir og Sigríður María Eggertsdóttir.

Rauði krossinn þakkar innilega fyrir framlagið sem rennur í Japanssöfnun Rauða krossins og mun nýtast vel í því öfluga uppbyggingastarfi sem japanski Rauði krossinn vinnur að.