25 árum eftir Tsérnóbýl slysið

27. apr. 2011

Þó að 25 ár séu liðin síðan kjarnorkuslysið varð í Tsérnóbýl í gömlu Sovétríkjunum þá eru afleiðingar slyssins enn að koma í ljós. Á vegum Rauða krossins fara sjö rannsóknarstofur á hjólum á milli þorpa á sléttunum í kringum Tsérnóbýl og leita að merkjum skjaldkyrtilskrabba í fólki.

Stuðningur Rauða kross Íslands við starfið hefur skipt miklu máli enda er oft erfitt að halda úti hjálparstarfi árum saman, jafnvel þó að þörfin hafi síst minnkað.

Læknar ferðast um á bílum sem útbúnir eru með tækjum til að skanna skjaldkirtil fólks, sem margt var á barnsaldri þegar slysið varð. Geislavirkt joð sem þessi börn urðu fyrir á þeim tíma getur orðið þess valdandi að krabbamein myndist í skjaldkirtli 20 – 30 árum síðar.

Auk þess að styðja krabbameinsleit á svæðinu heldur Rauði kross Íslands einnig úti verkefni gegn mansali í Gomel héraði í Hvíta-Rússlandi, sem er einmitt helsta áhrifasvæði geislamengunarinnar frá Tsérnóbýl. Héraðið er strjálbýlt og þar er veruleg fátækt. Þá útbúa sjálfboðaliðar Rauða krossins um allt land ungbarnapakka, sem flestir eru sendir til Hvíta-Rússlands, þar á meðal til Gomel.

Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins var í viðtali á síðdegisútvarpi RÚV þann 26.04.2011.