Sjálfboðin störf skipta sköpum í að bæta heiminn

8. maí 2011

Sameiginleg yfirlýsing formanna Alþjóðaráðs og Alþjóðasambands Rauða krossins á Alþjóðadegi Rauða krossins og Rauða hálfmánans 8. maí

Haítí, Pakistan, Líbía, Sýrland, Egyptaland, Japan. Meðan allur heimurinn fylgdist með átökum og náttúruhamförum í þessum löndum voru sjálfboðaliðar frá Alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans að störfum. Þeir voru meðal þeirra fyrstu að bregðast við aðstæðum með því að hlúa að sjúkum og særðum, veita skyndihjálp, og dreifa nauðsynlegum hjálpargögnum. Í rúmlega 150 ár hafa sjálfboðaliðar Rauða krossins sinnt óeigingjörnum störfum í þágu samborgara sinna.

Árið 2011 er Ár sjálfboðaliðans í Evrópu. Fyrir Rauða krossinn og Rauða hálfmánann er þetta tækifæri til að kynna það mikilvæga hlutverk sem sjálfboðaliðar gegna í samfélögum sínum um allan heim. Starf Rauða kross hreyfingarinnar, stærstu mannúðarhreyfingu í heimi, er borið uppi af sjálfboðaliðum. Einn af hverjum 2.000 jarðarbúum starfar sem sjálfboðaliði Rauða kross hreyfingarinnar. Þetta þýðir að sjálfboðaliðar Rauða krossins eða Rauða hálfmánans sinna þörfum samborgara sinna í nánast öllum samfélögum heims. Þessar tölur tala sínu máli og við ættum öll að vera stolt af þessari staðreynd.

Það er einnig mikilvægt að beina sjónum fólks að því að sjálfboðaliðar Rauða krossins eru oftar en ekki einnig fórnarlömb þeirra aðstæðna sem þeir bregðast við á neyðartímum. Sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans hafa aftur og aftur sýnt hugrekki sitt og samhygð með öðrum með því að setja eigin þarfir til hliðar til að veita aðstoð þar sem hennar er þörf. Þeir bretta upp ermarnar, sinna áhyggjufullum nágrönnum og leggja sitt að mörkum til að bæta aðstæður.

Án 13 milljóna sjálfboðaliða Rauða krossi hreyfingarinnar gætum við ekki veitt þeim 150 milljón manns sem þurfa á aðstoð okkar að halda á hverju ári. Árið 2009 veittu sjálfboðaliðar Rauða krossins þjónustu til samfélagsins sem metin hefur verið sem svarar 6 milljörðum bandaríkjadollara. Sá félagslegi stuðningur sem þessir sjálfboðaliðar veita er hinsvegar ómetanlegur til fjár.

Hamfarir munu alltaf eiga sér stað einhversstaðar í heiminum. Vopnuð átök og ofbeldi, hamfarir af náttúrunnar hendi eða af mannavöldum, hungur, sjúkdómar og mismunun í samfélaginu eru hluti af lífi okkar allra. Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn býr yfir geysi öflugum mannauði til að bregðast við slíkri neyð. Á þessum Alþjóðadegi Rauða kross hreyfingarinnar viljum við því þakka öllum okkar sjálfboðaliðum fyrir að sinna svo óeigingjörnu og ómetanlegu starfi.

Við skulum einnig muna að sjálfboðaliðar okkar bregðast ekki einungis við þegar hamfarir verða. Daglega sinna þeir störfum sínum um allan heim við að bæta samfélagið og aðstoða nágrannann án þess að nokkur verði þess var. Það er skylda okkar sem störfum í þessari stærstu mannúðarhreyfingu heims að minna ríkisstjórnir og ráðamenn á það mikilvæga hlutverk sem sjálfboðaliðar okkar gegna í daglegu lífi, og skyldu okkar á að vernda þá og meta störf þeirra að verðleikum – störf sem oft kalla á persónulegar fórnir sjálfboðaliðans.

Nú í nóvember mun Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans og ríkisstjórnir koma saman í Genf á 31. Alþjóðaráðstefnu hreyfingarinnar. Ráðstefnan verður haldin undir yfirskriftinni: Veröldin okkar. Þú átt leik - slagorð sem minnir okkur á að við höfum öll hlutverki að gegna til að bæta heiminn. Þetta er í raun kjarninn í sjálfboðnu starfi. Hvert okkar getur breytt aðstæðum í okkar eigin samfélagi með því að vinna að framförum í nánasta umhverfi okkar.

Við þökkum öllum sjálfboðaliðum heimsins fyrir störf þeirra í þágu Rauða krossins og Rauða hálfmánans og óskum til hamingju með Alþjóðadag Rauða kross hreyfingarinnar.

Tadateru Konoé
formaður Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans

Jakob Kellenberger
formaður Alþjóðaráðs Rauða krossins