Hjúkrunarfræðingur Rauða kross Íslands við störf á Haítí

16. maí 2011

O. Ragnheiður Þórisdóttir hjúkrunarfræðingur Rauða kross Íslands hóf nýverið störf í búðum Alþjóða Rauða krossins á Haíti. Meginstarf hennar er að huga að heilsufari hundruða hjálparstarfsmanna í Port-au-Prince.

Þó að sextán mánuðir séu liðnir síðan jarðskjálftinn á Haítí varð rúmlega 220.000 manns að bana þá er enn þörf fyrir umfangsmikið hjálparstarf. Það fer fram við afar erfiðar aðstæður, og því er mikilvægt að huga að heilbrigði hjálparstarfsmanna.

„Enn eru fleiri en 600 þúsund manns í tjaldbúðum á Haítí,“ segir Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands. „Það þýðir að meðfram uppbyggingunni, sem er hafin, þá þarf að sinna þörfum fólks sem býr við álíka aðstæður og á fyrstu vikunum eftir skjálftann.“

Auk þess að sinna heilbrigði hjálparstarfsmanna verður Ragnheiður tengiliður Rauða kross Íslands við samstarfsverkefni í sálrænum stuðningi með Rauða krossi Haítí og nokkrum öðrum Rauða kross félögum. Stuðningurinn beinist fyrst og fremst að börnum, sem eiga mjög undir högg að sækja í þeirri almennu neyð sem ríkir enn á Haítí.

Á síðasta ári sendi Rauði kross Íslands alls 27 sendifulltrúa til Haítí, mestmegnis lækna og hjúkrunarfræðinga sem störfuðu í tjaldsjúkrahúsum,  þeirra á meðal Ragnheiði.