Nú tekur réttvísin við

Þóri Guðmundsson, sviðsstjóra alþjóðasviðs Rauða kross Íslands

30. maí 2011

Óhæfuverk í stríði eru orðin að hversdagslegum viðburði, sem við heyrum af og horfum jafnvel á í sjónvarpi og á vefnum. Svo tíðar fréttir berast af tillitsleysi og grimmd að flestir hætta að taka eftir þeim. En stundum verða atburðir sem hreyfa við okkur, sem við getum ekki gleymt, getum ekki fyrirgefið. Einn slíkur var fjöldamorðin í Srebrenica.

Hægt er að lesa sér ákvæmlega til um það hvað gerðist. Hvernig her Bosníuserba umkringdi bæinn, lét sig litlu skipta þó að óreyndir hollenskir friðargæsluliðar væru í veginum og yfirtóku þetta meinta griðasvæði Sameinuðu þjóðanna. Því er lýst hvernig serbar aðskildu konur og karla - og karlarnir voru sumir á barnsaldri - og hvernig yfirmaður þeirra, Ratko Mladic, fullvissaði alla um að þau væru óhult.

Á næstu sólarhringum murkuðu menn Mladic lífið úr átta þúsund mönnum. Þeir eltu þá upp um hæðir og tún í kringum bæinn.  Sumir þeirra tóku myndir af aftökunum.

Sorg og tár í húsi Rauða krossins
Nokkrum vikum síðar var ég staddur í Tuzla, sem er nágrannabær Srebrenica. Þar voru allar skólastofur yfirfullar af konum sem höfðu komist út úr bænum.  Einn ungur karlmaður var nýkominn til Tuzla eftir hrikalegan flótta undan hersveitum serba.

Í höfuðstöðvum Alþjóða Rauða krossins í Tuzla var búið að setja upp fjölda borða þar sem ungir starfsmenn samtakanna skrifuðu lýsingar á karlmönnum sem saknað var. Lýsingarnar höfðu þeir eftir eiginkonum karlanna, dætrum, mæðrum og ömmum.  Ein kona sem virtist vera um sextugt, en var kanski yngri, hélt á klúti og þerraði tár sín sem flóðu óstjórnlega þar sem hún lýsti manni sínum - aldri, hæð, sérkennum.

Við svona aðstæður verður maður reiður, líka við sjálfan sig að geta ekkert gert.

Það má segja heimsbyggðinni til hróss, og þó sérstaklega Evrópusambandinu, að grimmdarverkin í Srebrenica hafa ekki gleymst. Genfarsamningarnir segja fyrir um hvað er leyfilegt í stríði og hvað ekki. Dómstólar sem Sameinuðu þjóðirnar hafa stofnað hafa nú raunverulegt vald til að refsa þeim sem brjóta þessa samninga. Og nú er verið að leita þessa menn uppi, einkum helstu leiðtogana sem bera mesta ábyrgð, rétta yfir þeim og setja þá sem hljóta dóm í fangelsi.

Að hemja ofbeldið
Þessi þróun í átt til alþjóðlegs réttarríkis var ekki sjálfsögð. Mannúðar- og mannréttindasamtök hafa barist einarðlega fyrir alþjóðalögum sem hafa raunveruleg áhrif. Á hverju ári verða einhverjar framfarir í þá átt að gera harðneskju stríðs að lögleysu og þá sem beita henni að glæpamönnum.

Fyrir tilstilli þessarar baráttu gegn ómennskunni hefur tekist að banna jarðsprengjur, klasavopn og margs konar önnur stríðstól sem gera ekki greinarmun á hermönnum og óbreyttum borgurum. Fyrir tilstilli hennar er ólöglegt að ráðast á sjúkrahús eða fela vopn í sjúkrabílum Rauða krossins, eins og nýleg dæmi eru um. Og vonandi tekst á næstu árum að gera alþjóðasamning sem setur bönd á útbreiðslu handvopna.

Brotamönnum refsað
Bosníustríðið verður ekki tekið aftur. Hatrið sem það ól meðal þjóðanna og þjóðarbrotanna á Balkanskaga hverfur ekki í einhverja mannsaldra. En ef til vill verða framfarir á sviði alþjóðlegra mannúðarlaga slíkar að annað slíkt stríð getur ekki orðið eða getur ekki að minnsta orðið jafn blóðugt. Hluti af þeirri framtíðarsýn er að glæpamönnunum sem fremja brot á lögum siðaðra þjóða verði refsað.

Konurnar sem báðu Rauða krossinn að leita að körlunum sínum hafa ekki fengið þá aftur. Þeir eru dánir. En konunum er vonandi einhver huggun í því að maðurinn sem hafði líf þeirra í hendi sér er loks kominn í hendur réttvísinnar.