Harmleikurinn við Miðjarðarhafið sýnir að enn frekari þörf er á að tryggja réttindi farenda

Matthias Schmale varaframkvæmdastjóa Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans

7. jún. 2011

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans lýsir áhyggjum yfir afdrifum þeirra hundruða farenda (e. migrants) sem flúðu yfir Miðjarðarhafið í byrjun árs.

Fólksflutningar sem þessir eru ekki nýir af nálinni, og eru arðbær tekjulind smyglara, en aukið ofbeldi og versnandi aðstæður óbreyttra borgara í Mið-Austurlöndum og Norður Afríku hafa leitt til hnignandi ástands.

Í einu sérstaklega skelfilegu tilviki er talið að 61 farendur frá Eþíópíu, Nígeríu, Erítreu, Gana og Súdan hafi látið lífið eftir 16 daga sjóferð án eldsneytis, matar eða vatns. Um 600 manns eru sagðar hafa farist í skipsskaða fyrir skömmu síðan. Evrópuráðið hefur kallað eftir rannsókn á fyrra tilvikinu.

Samkvæmt Alþjóða siglingalögum eru skip skyldug að svara neyðarköllum og að bjóða aðstoð ef mögulegt er. Í öðrum Genfarsamningnum frá 1949 er fjallað um bætta meðferð særðra, sjúkra og skipreika sjóliða á hafi úti. Þar kemur fram að þeim skuli safnað saman og að þeir fái mannúðlega meðferð og umönnun.

Hlutleysi er eitt af grundvallarhugsjónum alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans. „Reynt er að draga úr þjáningum einstaklinga og þarfir hvers og eins hafðar að leiðarljósi en veita forgang þeim sem verst eru á sig komnir". Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans undirstrikar nauðsyn þess að veita varnarlausum farendum varanlega mannúðaraðstoð, án tillits til lagalegra stöðu þeirra.

Farið er yfir hættuleg svæði
Leiðin frá Nígeríu og Eþíópíu til suðurhluta Miðjarðarhafsins er mjög áhættusöm, ströndin er hættuleg, fara þarf yfir eyðimerkur og í gegnum átakasvæði og tekur marga daga í senn og allt að nokkrum vikum.

Leiðin yfir Miðjarðarhafið er jafnframt mjög áhættusöm en misjöfn eftir árstíðum. Framundan er sumarið með betri veðurskilyrðum og þá má búast við að straumur farenda yfir hafið aukist en yfir sumartímann eru tímabundin störf í boði í Evrópu sem farendur sækjast í. Alþjóða Rauði krossinn sér fram á að á árinu 2011 verði aukning á fólksflutningum frá Norður-Afríku og Persaflóa.

Alþjóðasamband Rauða krossins mótar stefnu
Stefna Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans um fólksflutninga, sem samþykkt var á allsherjarþingi hreyfingarinnar í Naírobi fyrir tæpum tveimur árum,  knýr Rauða krossinn til að vinna enn frekar að málefnum farenda og kallar eftir samstöðu landsfélaga hreyfingarinnar: „Landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans á þeim svæðum þar sem flutningar fólks eru hvað mestir munu vinna saman að því að mannúðar sé gætt og að endurreisa fjölskyldutengsl. Það krefst þess að horfa verður til aðstæðna og ástands farenda sem eru sérstaklega viðkvæmir gagnvart hvers kyns hættu á meðan ferð þeirra stendur.“

Boðað var til fundar í Róm í mars síðastliðnum. Gefin var út eftirfarandi yfirlýsing:  „Allir þeir sem flýja til að lifa af verða að komast á örugg svæði [...] Ríki heims ættu að tryggja að grunnþarfir farenda séu uppfylltar, að þeir séu meðhöndlaðir með virðingu, sé ekki mismunað og fái aðgang að grunnþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, mat og menntun."
Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans fagnar skuldbindingu tiltekinna ríkja til að veita mannúðaraðstoð, vernd og aðra þjónustu við þá sem flúið hafa ofbeldi í Norður-Afríku. Alþjóðasambandið hvetur öll ríki til að virða mannréttindi farenda samkvæmt alþjóðalögum til að tryggja að þeir séu meðhöndlaðir af virðingu og að allir þeir sem flýja komist í öruggt skjól.