Rauði krossinn krefst þess að komast óhindrað að átakasvæðum í Sýrlandi

10. jún. 2011

Alþjóða Rauði krossinn harmar það hversu margir hafa látið lífið og særst í átökunum í Sýrlandi, og krefst þess að fá leyfi til að aðstoða fórnarlömb átakanna, og sérstaklega þá sem teknir hafa verið til fanga.

„Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir til sýrlenskra yfirvalda hefur Rauða krossinum ekki verið leyft að aðstoða þá sem eru í sárri neyð. Við erum staðráðin í því að aðstoða borgara sem nú líða miklar þjáningar vegna ofbeldisverka og átaka. Og við erum einnig staðráðin í því að aðstoða þá sem teknir hafa verið höndum,“ sagði Jakob Kellenberger formaður Alþjóða Rauða krossins (ICRC). „Þetta fólk þarf að fá lífsnauðsynlega aðstoð án tafar.“

Upplýsingar hafa borist um að hundruð manna hafi verið drepin eða særð, þúsundir verið teknir höndum og enn fleiri búi við hálfgert stofufangelsi á heimilum sínum þar sem þeir komast ekki úr húsi vegna átakanna.

„Rauði krossinn er reiðubúinn til að senda starfsfólk til átakasvæðanna til að veita nauðsynlega vernd og aðstoða þá sem nú búa við mikla neyð,“ sagði Kellenberger. „Við höfum margítrekað kröfu okkar um að fá aðgang að öllum þeim sem teknir hafa verið til fanga til að meta aðbúnað þeirra og meðhöndlun svo að við getum deilt þeim upplýsingum með viðeigandi yfirvöldum. Ég er reiðubúinn til að fara til Sýrlands sjálfur strax í dag til að ræða við stjórnvöld.“

Rauði krossinn hefur ásamt Rauða hálfmánanum í Sýrlandi tekist að komast í stuttar heimsóknir til Daraa, Tartous and Homs í síðasta mánuði.

„Við munum halda áfram að styðja við starf Rauða hálfmánans sem hefur bjargað þúsundum mannslífa undanfarnar vikur,“ sagði Kellenberger. „En vegna þess hve stuttar þessar heimsóknir hafa verið er mjög erfitt að gera sér fulla grein fyrir aðstæðum á átakasvæðunum og þörfinni fyrir nauðsynlegri aðstoð.“

Rauði krossinn hefur ítrekað krafist þess af stjórnvöldum og öðrum aðilum að átökunum að virða líf óbreyttra borgara og sjá til þess að þeir haldi mannlegri reisn. Öryggissveitir stjórnvalda verði að lúta alþjóðlegum mannúðarlögum í aðgerðum sínum til að halda uppi lögum og reglu í landinu. Þeir sem teknir hafa verið höndum skulu sömuleiðis njóta verndar alþjóðlegra mannúðarlaga.

Einn sendifulltrúi Rauða kross Íslands, Áslaug Arnoldsdóttir hjúkrunarfræðingur, starfar nú á átakasvæðum í Líbýu þar sem einnig hefur verið uppreisn gegn ríkjandi stjórnvöldum.  Áslaug  var fengin til starfa af Alþjóða Rauða krossinum í einn mánuð og mun ljúka störfum í lok júní. Mörg hundruð manns hafa látist í Líbýu síðan átök milli stjórnarhers og uppreisnarmanna brutust út í febrúar og þúsundir hafa særst.