VSÓ styður hjálparstarf Rauða krossins í Kákasusfjöllum

25. maí 2010

VSÓ Ráðgjöf og Rauði kross Íslands gerðu í dag samkomulag um stuðning fyrirtækisins við hjálparstarf félagsins í Georgíu og Armeníu á næstu 18 mánuðum. Markmið hjálparstarfsins er að byggja upp kerfi neyðarvarna í Kákasusfjöllum, þar sem jarðskjálftar, skriðuföll og flóð eru algeng og valda miklum búsifjum.

Herdís Sigurjónsdóttir, starfsmaður VSÓ Ráðgjafar og sérfræðingur um viðbúnað og viðbrögð vegna náttúruhamfara, mun samkvæmt samkomulaginu vinna í stýrihópi vegna uppbyggingar neyðarvarna Rauða kross félaganna í Georgíu og Armeníu.

Herdís var áður neyðarvarnafulltrúi Rauða kross Íslands en starfar nú við neyðarstjórnun og hefur m.a. aðstoðað sveitarfélög á Suðurlandi við greiningu og viðbragðsáætlunargerð eftir náttúruhamfarir.

Árið 1988 létust 25.000 manns í jarðskjálfta í Armeníu og síðan þá hafa tveir stórir skjálftar orðið á Kákasussvæðinu. Skógareyðing, fólksfjölgun og margvíslegar afleiðingar efnahagshruns síðustu tveggja áratuga hafa gert almenning berskjaldaðri fyrir flóðum og skriðuföllum.

Þrátt fyrir tíðar náttúruhamfarir, smáar og stórar, hefur skort verulega á viðbúnað og samræmd viðbrögð. Með stuðningi ECHO, mannúðarskrifstofu Evrópusambandsins, ætlar Rauði krossinn að stuðla að eflingu viðbúnaðar og samræmingu milli Rauða krossins og stjórnvalda á hverjum stað.

Í því sambandi kemur þekking og reynsla Íslendinga sér vel, enda búa Íslendingar við svipaðar hættur en hafa náð langt í skipulagningu viðbragða, þar sem sjálfboðahreyfingar og stjórnvöld vinna hlið við hlið. Rauði kross Íslands, Rauði kross Danmerkur og Alþjóðasamband Rauða kross félaga vinna saman að verkefninu með heimamönnum.