Varðveittu skóginn fyrir börnin þín, sem faðir er það skylda þín. (Georgískt spakmæli)

Grein frá danska Rauða krossinum.

11. júl. 2011

Amiran Tvaradze frá þorpinu First Tola í Ambrolaurihéraði í Georgíu er sjálfboðaliði georgíska Rauða krossins við trjáplöntun. Með því leggur hann sitt af mörkum við að hefta jarðvegseyðingu af völdum loftslagsbreytinga. Trén sem hann plantar fá nöfn fimm barnabarna hans á aldrinum 3-11 ára.

Amiran er glaðlegur en alvarlegur og duglegur maður sem hefur unnið langan dag þann 7. maí  en þann dag tóku starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða krossins ásamt 170 fulltrúum sveitarfélagsins sig saman við að planta 3000 valhnetutrjám til að binda jarðveg og minnka líkur á að aurskriður eyðileggi heimili og akra íbúanna.

Amiran vonar að barnabörnin hans taki við hugsjónum forfeðra sinna og hugi að gróðurvernd. Hann vonar líka að þegar þessi skógur vex og dafnar og ber ávöxt muni barnabörnin hans minnast afa með miklum kærleika.  Amiran býr í fjallahéraðinu Racha-Lechkhumi  sem er rómað fyrir náttúrufegurð, vatnsmiklar ár, fornar minjar og harðduglegt fólk. Héraðið er hins vegar eitt af þeim svæðum þar sem náttúruhamfarir eru tíðar, s.s. jarðskjálftar, aurskriður, skógareldar og flóð.

Rauði kross Íslands er í samstarfi við danska Rauða krossinn og Rauða kross félög í Georgíu og Armeníu sem gengur út á að efla almannavarnir í Kákasuslöndunum.  Almannavarnir þessara landa hafa fram að þessu verið fremur bágbornar og löndin hafa átt erfitt  með að takast á við afleiðingar náttúruhamfara. Fulltrúi Rauða kross Íslands í samstarfsverkefninu er Herdís Sigurjónsdóttir almannavarnaráðgjafi. Verkefnið nær til rúmlega 70.000 íbúa í Racha-Lechkhumi og Kvemo Svaneti í Georgíu og Shirak héraðsins í Armeníu.

Lengri útgáfa af grein danska Rauða krossins er hægt að fá á ensku með því að smella hér.