Rauði krossinn veitir matvælaaðstoð í öllum héruðum Sómalíu

26. ágú. 2011

Hjálparstarf Alþjóða Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Sómalíu hefur aukist jafnt og þétt síðustu tvær vikur og nær nú til allra héraða landsins.  Fjórar nýjar næringarstöðvar Rauða krossins voru opnaðar á átakasvæðunum í Gedo og Bakool, en þau héruð hafa orðið einna verst úti í þurrkunum undanfarna mánuði.

„Fimmti hver Sómali þjáist af alvarlegri vannæringu. Það er grafalvarlegt ástand," segir Dr. Ahmed Mohamed Hassan, formaður Rauða hálfmánans í Sómalíu. „Það er því spurning um líf og dauða að opna næringarstöðvar um gervalla Sómalíu til að bjarga eins mörgum ungum börnum og mæðrum með börn á brjósti og hægt er frá vannæringu."

Með opnun hinna fjögurra nýju næringarstöðva nær Rauði hálfmáninn í Sómalíu til nauðstaddra í öllu landinu, og einnig þeirra héraða þar sem ástandið er hvað verst. Áætlað er að opna sex miðstöðvar til viðbótar við þá matvælaaðstoð sem þegar er til staðar í Afgoye í Banadir héraði. Þá rekur Rauði hálfmáninn 13 færanlegar heilsugæslu- og næringarstöðvar á afskekktum svæðum til þess að ná til sjúklinga sem geta ekki leitað sér aðstoðar.  Um 50.000 börn sem þjást af vannæringu og 24.000 verðandi mæður og mæður með börn á brjósti munu njóta góðs af neyðaraðstoð Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

Rauði kross Íslands hefur varið ríflega 30 milljónum í að styrkja neyðaraðstoð Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Sómalíu.  Rúmlega 22 milljónir eru framlög frá einstaklingum og fyrirtækjum sem lagt hafa Sómalíusöfnun Rauða krossins lið, utanríkisráðuneyti lagði til um 4,3 milljónir og Rauði kross Íslands veitti 4,3 milljónum úr eigin neyðarsjóði.  Allri þessari upphæð hefur verið varið til kaupa á bætiefnaríku hnetusmjöri sem notað er sem lífsbjörg fyrir vannærð börn. 

Aðsókn að næringarstöðvum Rauða hálfmánans í Sómalíu hefur tvöfaldast frá því í mars og hefur því þurft að fjölga starfsmönnum mikið til að annast hjálparstarfið.  Alþjóða Rauði krossinn hefur gert upp heilsugæslustöðvarnar og sett þar upp nauðsynlegan tækjabúnað til að annast þá sem þjást af vannæringu.  Rauði krossinn sér stöðvunum einnig fyrir matvælum og þjálfun starfsfólks.

Þurrkar hafa geisað í Sómalíu síðan í október á síðasta ári.  Afleiðingar þeirra hafa haft geigvænleg áhrif á íbúa landsins sem eru þegar aðframkomnir vegna tuttugu ára borgarstyrjaldar í landinu.  Alþjóða Rauði krossinn styrkir 39 heilsugæslustöðvar sem Rauði hálfmáninn í Sómalíu rekur og er matvælaaðstoð einnig á þeim flestum. Auk þess vinna Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn að langtímaverkefnum til að aðstoða fólk við sáningu og gróðursetningu fyrir næstu uppskeru.  Þá hefur Alþjóða Rauði krossinn dreift matvælum til um 162.000 manns í Suður- og Mið-Sómalíu síðan í júní.