Rauði krossinn tvöfaldar neyðarbeiðni fyrir Sómalíu og eykur neyðaraðstoð fyrir milljón manns

4. ágú. 2011

Alþjóða Rauði krossinn eykur nú jafnt og þétt neyðarhjálp sína í Mið- og Suður Sómalíu til að koma rúmlega 1 milljón manna til aðstoðar í viðbót við þær þúsundir sem þegar njóta hjálpar. Milljónir Sómala heyja nú baráttu upp á líf og dauða vegna afleiðinga átaka og þurrka síðustu ára. Rauði krossinn hefur tvöfaldað neyðarbeiðni sína og leitar nú eftir stuðningi fyrir alls 19 milljarða íslenskra króna í Sómalíu einni.

"Þetta eru viðbrögð Rauða krossins við aðstæðum sem versna með hverjum degi sem líður," segir Jakob Kellenberger, formaður Alþjóða Rauða krossins. "Milljónir manna eru nú í hættu vegna hungursneyðar og skorts á vatni. Þetta eru afleiðingar 20 ára borgarastyrjaldar og viðvarandi þurrka. Verðbólga og hækkun heimsmarkaðsverðs á matvælum og eldsneyti hafa einnig orðið þess valdandi að ástandið hefur hríðversnað frá áramótum.”

Rauði krossinn veitir nú þegar aðstoð í öllum héruðum Mið- og Suður Sómalíu. Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn eru einu hjálparsamtökin í landinu sem fá að starfa á öllum svæðum al Shabaab uppreisnarmanna, og eru nú þegar með dreifingarkerfi sem getur annast svo umfangsmikla matvælaaðstoð. Neyðarbeiðnin mun gera Rauða krossinum kleift að fjölga næringarmiðstöðvum sínum og efla matvæladreifingu þangað til í desember þegar ný uppskera fæst. "

Það er ekki hægt að lýsa þörfinni á neyðaraðstoð í mið- og suðurhluta Sómalíu þar sem aðeins örfá hjálparsamtök hafa fengið starfa óáreitt, " segir Kellenberger. "En við megum ekki bregðast þessu fólki sama hversu erfitt það er að sinna neyðaraðstoð á þessu versta átakasvæði heims. Við höfum fulla trú á að við getum veitt lífsnauðsynlega aðstoð hratt og vel í samvinnu við systursamtök okkar í sómalska Rauða hálfmánanum.”

Um 50,000 börnum sem þjást af næringarskorti, og 24,000 verðandi mæðrum og mæðrum með börn á brjósti verður sinnt í næringarmiðstöðvunum. Um síðustu helgi var mánaðarskammti af matvælum dreift til 162,000 manns í mið- og suðurhluta Sómalíu, og á næstu dögum og vikum mun Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn auka matvæaladreifingu í heilsugæslustöðvum sínum um allt land.

Frá því í apríl hefur nauðsynlegum eldhúsáhöldum verið dreift til 250,000 manns á vergangi í Mið- og Suður Sómalíu, og 400,000 manns hafa fengið aðgang að hreinu vatni.