Rauði krossinn dreifir matvælum daglega í Sómalíu þrátt fyrir erfiðar aðstæður

29. júl. 2011

Rauði krossinn dreifir matvælum daglega til þúsunda fjölskyldna í Mið- og Suður Sómalíu, þvert á átakalínur meðan stríð geisar þar. Þá njóta um 5.500 börn umönnunar í 40 næringarmiðstöðvum Rauða krossins og Rauða hálfmánans víðsvegar um landið.  Rauði krossinn rekur einnig um 20 heilsugæslustöðvar um allt land og vinnur að vatnsveituverkefnum á þurrkasvæðunum.

Vegna sérstöðu sinnar nær Rauði krossinn til nauðstaddra á átakasvæðum þar sem önnur hjálparsamtök eiga erfitt með aðgang. Alþjóða Rauði krossinn hefur sinnt hjálparstarfi í Sómalíu síðan 1982. Nú þegar verstu þurrkar í 60 ár geisa á svæðinu hefur Rauði krossinn aukið hjálparstarf sitt jafnt og þétt þrátt fyrir að aðstæður séu erfiðar og víða mjög hættulegar vegna átaka uppreisnarherja.

Rauði krossinn dreifir nú matvælum til um 160.000 manns í Sómalíu, og mun á næstu vikum auka aðstoð sína jafnt og þétt með sérstakri áherslu á að vinna bug á vannæringu barna. Unnið er að því að setja upp enn fleiri heilsugæslustöðvar um allt land til að sinna ungbörnum og mæðravernd og setja upp brunna svo fólk hafi aðgang að hreinu vatni.

Rauði kross Íslands hefur eyrnamerkt öll framlög íslensks almennings kaupum á vítamínbættu hnetusmöri. Notkun þess er bylting í umönnun vannærðra barna og hægt er að að hjúkra börnum til heilbrigðis á 3-4 vikum. Ólíkt annarri fæðu eiga þau auðvelt með að innbyrða hnetusmjörið auk þess sem það er ákaflega hitaeiningaríkt og fullt af lífsnauðsynlegum bætiefnum. 

Öllu söfnunarfé frá almenningi verður 100% varið í neyðaraðstoð Rauða krossins vegna hungursneyðarinnar í Austur Afríku. Skammtur af hnetusmjöri fyrir 1.500 krónur dugar fyrir eitt barn í 3-4 vikur, sem er sú upphæð sem menn gefa með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 904-1500. Þá bætast 1.500 krónur við næsta símreikning. Einnig er hægt að leggja inn inn á reikning hjálparsjóðs Rauða krossins í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.