Umfangsmikið hjálparstarf Rauða krossins í Austur-Afríku

25. júl. 2011

Á meðan fé er safnað um allan heim fyrir neyðaraðstoðinni í Austur-Afríku, þá er hjálparstarf Rauða krossins í Sómalíu, Eþíópíu, Kenýu og Djíbútí í fullum gangi. Starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins dreifa næringarríkum mat til barna, aðstoða bændur með útvegum útsæðis, bora eftir vatni þar sem þurrkar herja og hjálpa hirðingjum með fóður svo þeir þurfi ekki að losa sig við búféð.

Alls eru nú fimm þúsund börn í næringarstöðvum Rauða krossins í Sómalíu, þar sem þau fá orkuríkan mat og aðra umönnun. Að öllu jöfnu tekur 2 – 4 vikur að hjúkra barni þannig til fullrar heilsu, eftir að það kemur illa vannært til Rauða krossins. 

Alþjóðastofnanir og landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans juku hjálparstarf sitt verulega eftir að svokallaðar deyr rigningar í september til nóvember 2010 brugðust. Þá þegar var ljóst að það stefndi í alvarlegan uppskerubrest.

Þannig hefur Alþjóða Rauði krossinn á undanförnum þremur mánuðum:

·         Útvegað 350 þúsund manns í suður- og mið-Sómalíu drykkjarvatn
·         Dreift matarskömmtum til tveggja mánaða til 39 þúsund manns í tveimur héruðum Sómalíu
·         Gefið 240 þúsund manns nauðsynlegustu áhöld til heimilishalds
·         Veitt útsæði til rúmlega 15 þúsund bænda - auk þess sem margir þeirra fengu einnig nauðsynleg tól og tæki
·         Aðstoðað við plægingu og áveituframkvæmdir
Í sumum tilvikum er um algjöra neyðaraðstoð að ræða en mikil áhersla er samt áfram lögð á aðstoð sem nýtist til framtíðar. Þannig hefur Rauði krossinn greitt bændum fyrir að byggja uppistöðulón fyrir áveitur; með því fá bændurnir fé sem hjálpar í yfirstandandi neyð og eftir stendur lónið sem nýtist til að koma í veg fyrir uppskerubrest í framtíðinni.
Allt fé sem Rauði kross Íslands safnar vegna ástandsnis nú fer til að kaupa orkuríkt jarðhnetumauk, sem gefið er vannærðum börnum. Söfnunarsíminn er 904 1500. Einnig er hægt að gefa til hjálparstarfsins hér og gerast Mannvinur og styðja þannig langtímastarf Rauða kross Íslands hér.
 https://secure.rki.is:8002/page/gefa_i_hjalparstarf
https://secure.rki.is:8002/page/skra_styrktarfelaga