Rauði krossinn eykur við neyðaraðstoð í Austur Afríku

22. júl. 2011

Alþjóða Rauði krossinn eykur nú jafnt og þétt við neyðaraðstoð sína í Austur Afríku. Verst er ástandið í Sómalíu þar sem áratugalöng borgarastyrjöld eykur á neyð fólks og gerir það enn berskjaldaðra fyrir þeim þurrkum og uppskerubresti sem nú geisa á svæðinu. Rauði krossinn, sem er ein fárra hjálparstofnana sem starfa í Sómalíu, vinnur nú að því að opna 10 nýjar næringarmiðstöðvar fyrir börn í suðurhluta landsins til viðbótar við þær 18 sem hafa verið starfræktar um árabil.

Þá sendi Alþjóða Rauði krossinn í dag út neyðarbeiðni vegna þurrkanna í Kenýu sem eru þeir verstu í 60 ár. Kallað er eftir 2 milljörðum íslenskra króna til að aðstoða um 1 milljón manna. Búist er við að neyðarbeiðni frá öðrum landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans á svæðinu fylgi í kjölfarið á næstu dögum og vikum.

Þurrkarnir í ár hafa valdið stórfelldum uppskerubresti og stráfellt húsdýr, einkum nautgripi. Milljónum manna eru því allar bjargir bannaðar við að afla sér lífsviðurværis og næringar. Vatnsból hafa þornað upp og því víða enginn aðgangur að neysluvatni.

Almenningur og fyrirtæki hafa brugðist mjög vel við söfnun Rauða kross Íslands vegna neyðarástandsins í Austur Afríku. Söfnunarsími Rauða kross Íslands er 904 1500. Þegar hringt er í númerið bætast 1500 krónur við næsta símreikning. Einnig er hægt að leggja fé inn á bankareikning Rauða krossins 0342-26-000012. Kennitalan er 530269-2649.