Formlega lýst yfir hungursneyð í Sómalíu

21. júl. 2011

Sameinuðu þjóðirnar hafa nú formlega lýst yfir því að hungursneyð ríki í tveimur héruðum Sómalíu. Það þýðir að fleiri en tveir af 10.000 látast daglega, yfir 30% manna er alvarlega vannærður, vatnsneysla komin undir fjóra lítra á dag og kaloríuinntaka komin undir 1.500 á dag, miðað við 2.100 sem mælt er með.

Rauði krossinn er ein af fáum alþjóðlegum hjálparstofnunum með starfsemi í mið- og sunnanverðri Sómalíu þar sem ástandið er verst. Á firstu fimm mánuðum ársins dreifði Rauði krossinn (að miklum hluta í gegnum sómalska Rauða hálfmánann) vatni til 347.000 manns á þurrkasvæðum auk þess sem sama fólk fékk aðstoð við gerð skýlis, áhöld til matargerðar og önnur mikilvæg áhöld til heimilishalds.

Auk beinna vatns- og matargjafa aðstoðaði Rauði krossinn 250.000 manns við að rækta eigin mat, með því meðal annars að útvega útsæði. Heislugæslustöðvum sómalska Rauða hálfmánans var fjölgað í 39 og matardreifingarstöðvum í 18.

Framlag Rauða kross Íslands til hjálparstarfsins er í formi næringarríks matar – jarðhnetumauks – sem er notað til að hjúkra hungruðum börnum til heilsu. Þeir sem hringja í söfnunarsímann 904 1500 gefa með því 1.500 krónur, sem bætt er við næsta símreikningi. Sú upphæð dugar til að kaupa þriggja vikna kúr af orkuríku jarhnetumauki.

Með öðrum orðum, þá er með framlaginu hægt að kaupa mat til að bjarga lífi barns í Sómalíu.

Hægt er að leggja fram fé til hjálparstarfsins með því að hringja í síma 904 1500 eða leggja fé inn á bankareikning Rauða krossins. Nauðsynlegar upplýsingar eru: 0342-26-000012 og kennitalan er: 530269-2649.