Rauði krossinn opnar söfnunarsíma og sendir næringarkex til Sómalíu

12. júl. 2011

Rauði kross Íslands hefur opnað söfnunarsímann 904-1500, sem er opinn þeim sem vilja styðja hjálparstarf Rauða krossins í austanverðri Afríku, þar sem hungursneyð ógnar lífi milljóna manna. Þeir sem hringja í símann gefa þar með 1.500 krónur, sem eru dregnar af næsta símreikningi.

Rauði kross Íslands tilkynnti Alþjóða Rauða krossinum í dag um fjögurra milljóna króna framlag, sem gerir kleift að senda næringarkex fyrir 176.400 máltíðir barna í Sómalíu, þar sem hungursneyðin er mest. Um er að ræða svokallað BP-5 kex, sem veitir mikla næringu og er hægt að borða beint eða blanda í vatn og borða sem graut.

Um tíu  milljónir manna búa við matarskort vegna þurrka, sem eru hinir mestu í 60 ár. Í Sómalíu eykur langvarandi borgarstyrjöld neyð almennings, einkum hirðingja sem hafa einnig orðið fyrir margvíslegum öðrum búsifjum á undanförnum árum.

„Mikilvægt er að koma til aðstoðar fólki sem nú upplifir hungursneyð, en til lengri tíma litið verður alþjóðasamfélagið að aðstoða heimamenn við að komast að rótum vandans,“ segir Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.
Erfitt hefur reynst að fjármagna langtímaverkefni sem Rauði krossinn hefur í þeim löndum þar sem neyðin er mest. Þá spáði kenýski Rauði krossinn í janúar yfirvofandi matarskorti en alþjóðastofnanir hafa að mestu haldið að sér höndum við fjármögnun verkefna til að koma í veg fyrir hann.

Í Sómalíu er Rauði krossinn ein fárra hjálparstofnana sem hafa getað haldið úti hjálparstarfi um allt land, einkum í mið- og sunnanverðu landinu þar sem átök hafa átt sér stað og þar sem ástandið er hvað verst.