Rétturinn til að leika sér

3. okt. 2006

Erfitt er að gleyma litlu andliti hennar og líkamsbeitingu, en það sem slær mann mest eru augun, sem bera ekki vott um frjálsa gleði heldur grimm átök. Ég hitti hina þriggja ára gömlu Fatimu þegar ég heimsótti bráðabirgðaskýli fyrir fólk sem misst hefur heimili sín eftir að hafa flúið til Beirút.

Eitthvað laðaði mig að henni, líklega þessi stóru, brúnu augu. Ég kraup hjá henni og spurði hana sömu spurningar og ég hef spurt öll börn þau fimm ár sem ég hef starfað sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Líbanon. „Viltu leika við mig, Fatima?” En svarið var ekki kunnuglegt: „Leika mér? Núna? Í alvöru?” Ég ímyndaði mér aldrei að barn gæti gleymt að leika sér, en Fatima litla hafði flúið þorp sitt í suðurhluta landsins og skilið leikföng sín og sælgæti eftir.

Það tók nokkurn tíma að sannfæra Fatimu um að við gætum leikið okkur. Það er, þegar öllu er á botninn hvolft, hennar réttur. Aðrir sjálfboðaliðar hafa þegar safnað saman flestum börnunum í skýlinu til að minna þau á að enginn getur komið í veg fyrir að þau leiki sér. Sjálfboðaliðarnir hafa unnið að skemmtunum til að hjálpa börnunum við að berjast við þær erfiðu aðstæður sem þau eru í. Þau eru meðal annars hvött til að tjá sig með því að teikna, segja sögur og taka þátt í stuttum leikritum.

Fatima litla togaði í samfestinginn minn. Ég sá hana brosa og heyrði hana hlæja. Næsta hálftímann varð hún aftur þriggja ára. Hún hljóp um, reyndi að skilja reglur nýja leiksins sem Rana, einn sjálfboðaliðanna, var að útskýra yfir endalausum hrópum og hlátrasköllum. Það var róandi að heyra þessi sakleysislegu hljóð aftur eftir að hafa vanist hrikalegu bergmáli endalausra sprengjuárása.

Hala, annar sjálfboðaliði, sýndi mér lista yfir níu skóla sem eftir er að heimsækja og gaf merki. Það var tími til kominn að kveðja með loforði um að koma aftur og gera eitthvað skemmtilegt. Fatima fylgdi mér til dyra. „Ætlum við að leika okkur aftur?” spurði hún. „Já, Fatima, það gerum við svo sannarlega.”