Sri Lanka: Fyrstu hjálpargögnin til Jaffna eftir tíu daga átök

24. ágú. 2006

Skip sem siglir undir fána Alþjóðaráðs Rauða krossins fór loks frá Colombo í gær í átt til Jaffna á Sri Lanka. Í skipinu eru nauðsynleg hjálpargögn fyrir þá sem misst hafa heimili sín á Jaffna-skaganum.

Ofbeldi og óöryggi er ríkjandi á Jaffna-skaganum, þrátt fyrir tuttugu og tveggja tíma daglegt útgöngubann og varðstöðu þúsunda hermanna á götum borga og við þjóðvegi. Stjórnarhermenn og Tígrarnir lokuðu helsta þjóðveginum frá skaganum fyrr í mánuðinum.

Það eru yfirvöld á Sri Lanka og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna sem útvega matvæli og lyf sem eru í skipinu. Þar eru meðal annars hrísgrjón, sykur, baunir og fiskur í dós. Alþjóðaráð Rauða krossins sendir hreinlætisáhöld og aðrar birgðir. Búist er við að þessi gögn komist til Jaffna á næstu dögum.

Báðir deiluaðilar hafa sagt að þeir ábyrgist öryggi skipsins og farmsins sem það ber.

Síðan átök brutust út að nýju á skaganum fyrir um tíu dögum hefur Jaffna-skaginn verið algjörlega einangraður bæði til sjós og lands. Þetta bætist ofan á þá erfiðleika sem átökin sjálf valda fólkinu. Alþjóðaráðið vonast til þess að mannúðarsamtök komist reglulega til Jaffna á næstu vikum ef stríðsástandið lagast ekki.

Fyrir milligöngu Alþjóðaráðsins hefur 243 óbreyttum borgurum verið komið í öruggt skjól frá Jaffna-skaganum þar af 61 erlendir ríkisborgarar.

Alþjóðaráð Rauða krossins heldur úti 46 manna skrifstofu á Jaffna-skaganum en starfsmenn eru alls um 580.