Fjárhagsaðstoðar óskað til að hjálpa fórnarlömbum flóða í Eþíópíu og Súdan

22. ágú. 2006

Alþjóða Rauði krossinn hefur óskað eftir um 1,7 milljónum svissneskra franka (97 milljónir króna) til að veita þúsundum fórnarlamba síaukinna flóða í Eþíópíu og Súdan bráðnauðsynlega aðstoð. Búist er við beiðni um frekari aðstoð á næstum vikum þegar nánara mat á ástandinu liggur fyrir.

Þar sem flóðin ná yfir stór svæði í löndunum tveimur stefnir Alþjóða Rauði krossinn ásamt landsfélögunum í Eþíópíu og Súdan að því að veita um níu þúsund manns í Eþíópíu og um 15 þúsund manns í Súdan aðstoð. Erfitt aðgengi og skortur á fjármagni og hjálpargögnum hamla hjálparstarfi í báðum löndum.

Neyðarteymi í Eþíópíu hafa unnið við að útvega hjálpargögn á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti síðan í byrjun ágúst. Heilbrigðisstarfsmenn á vegum stjórnvalda eru einnig að störfum ásamt leitar- og björgunarhópum, en þeir leita enn mörg hundruð manna sem er saknað. Síðustu daga hafa flóðin verið sérstaklega slæm í suðurhluta Omo-héraðs þar sem þúsundir manna eru innikróaðar. Flóðin er einnig slæm í norðurhlutanum (Tegere-áin) og í næststærstu borg Eþíópíu, Dire Dawa, sem er á norðausturhluta landsins við landamærin að Sómalíu.

Í Súdan hefur Rauði hálfmáninn virkjað sitt fólk sem starfar við neyðar- og heilbrigðisaðstoð. Þetta fólk veitir aðstoð og metur þörfina fyrir hana. Samkvæmt fregnum frá þessum hópum hafa hús skemmst mikið og eru hundruð manna nú án húsaskjóls.

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent menn til Eþíópíu til að styðja við þá sem þegar starfa þar við neyðaraðstoð á vegum landsfélagsins. Annar hópur manna verður sendur til Súdan til að styðja við þá sem starfa þar auk þess sem sérfræðingar koma frá nokkrum systurfélögum til að styðja við Rauða hálfmánann í Súdan.

Alls þúsund manns hafa týnt lífi í flóðunum í þessum tveimur löndum og um 50 þúsund manns hafa orðið fyrir búsifjum vegna þeirra, þó að erfitt sé að fá nákvæma tölu yfir það vegna erfiðra samskipta. Þar sem búist er við frekari rigningum næstu daga er líklegt að þessi tala eigi eftir að hækka. Menn hafa sérstakar áhyggjur af fólki á flóðasvæðunum, en margir þeirra eru með búskap og hafa þegar misst hundruð búfjár. Þá eru nokkrir akrar einnig í mikilli hættu.

Ástæða flóðanna er meiri rigningar en venjulega í Eþíópíu og á hásléttum Erítreu sem leiða til þess að árnar Níl og Algash flæða yfir bakka sína, auk annarra smárra áa í Eþíópíu. Langtímaveðurspár gera ráð fyrir meiri rigningum á svæðinu á næstum vikum. Alþjóða Rauði krossinn heldur áfram að fylgjast með flóðum í öðrum löndum í nágrenninu, svo sem Úganda og Erítreu.