Ríkisstjórn Íslands styrkir starf Alþjóða Rauða krossins

15. ágú. 2006

Ríkisstjórn Íslands veitti í gær viðbótarframlag, 7,1 milljón króna, til hjálparstarfs Rauða krossins í Líbanon. Áður hafði ríkisstjórnin styrkt hjálparstarf Rauða krossins um tvær milljónir.

„Rauði kross Íslands þakkar þessi framlög sem eru mjög mikilvægur liður í hjálparstarfi Rauða kross hreyfingarinnar. Alþjóðaráð Rauða krossins og líbanski Rauði krossinn hafa gengt lykilhlutverki í hjálparstarfinu í Líbanon undanfarnar vikur,” segir Kristján Sturluson framkvæmdastjóri.

Að meðtöldum framlögum íslenskra stjórnvalda nemur framlag Rauða kross Íslands til hjálparstarfsins í Líbanon alls tæplega 12 milljónum króna.

Þrátt fyrir vopnahlé sem tók gildi í gær heldur hafnarbann Ísraelshers áfram og komið er í veg fyrir flugsamgöngur. Árásirnar hafa gjöreyðilagt innviði í Líbanon og fjórði hver íbúi hefur yfirgefið heimili sín. Afleiðingarnar eru geigvænlegar og neyðarástand mun vara áfram næstu mánuði.

Að kvöldi 11. ágúst sl. urðu hundruð manna á flótta í grennd við Marjayoun fyrir árás herflugvéla Ísraelshers. Í árásinni lést Mikhael Jbayleh sjálfboðaliði líbanska Rauða krossins þegar hann var að aðstoða særða meðborgara sína. Alþjóða Rauði krossinn og líbanski Rauði krossinn lýsa yfir miklum harmi við lát félaga síns og tekur Rauði kross Íslands heilshugar undir það. „Það er okkur Rauða kross fólki alltaf mikið áfall ef einhver félaga okkar særist eða týnir lífi við mannúðarstörf,” segir Kristján.

Fyrr þann sama dag særðust tveir sjálfboðaliðar Rauða krossins þegar sjúkrabíll varð fyrir sprengikúlum á leið í höfuðstöðvar líbanska Rauða krossins í Tebnine austur af Tyre. Samkvæmt heimildum voru engin átök í nágrenninu þegar atburðurinn átti sér stað.

Alþjóða Rauði krossinn hefur margsinnis lýst yfir áhyggjum sínum af ónógum varúðarráðstöfunum stríðandi fylkinga þegar ráðist er á saklausa borgara og hjálparstarfsmenn. Jakob Kellenberger forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins hvatti stríðandi aðila að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkar árásir, eins og kveðið er á um í alþjóðlegum mannúðarlögum, þegar hann heimsótti leiðtoga Ísraela og Líbanons í síðustu viku.

Þrátt fyrir erfitt ástand hefur líbanski Rauði krossinn, sem rekur 200 sjúkrabíla, meðal annars flutt 886 særða á sjúkrahús, flutt á brott um 6.200 óbreytta borgara og fjarlægt 285 lík úr rústum sprengdra bygginga. Ungir sjálfboðaliðar Rauða kross Líbanon hafa útvegað mat, vatn og hreinlætisáhöld fyrir um 200 þúsund manns sem misst hafa heimili sín í og við Beirút.

Alþjóða Rauði krossinn hefur aðstoðað 127 þúsund manns með matarpökkum ásamt hreinlætisvörum. Flestir búa í þorpum á svæðinu sunnan Litaní árinnar og í Tyre og Baalbeck. Einnig hafa spítalar og heilsugæslustöðvar fengið nauðsynleg lyf og áhöld.

Alþjóða Rauði krossinn vinnur að því að fá að heimsækja fanga og hefur boðist til að vera hlutlaus aðili við fangaskipti og að koma líkum til ættingja.