Neyðaraðstoð til óbreyttra borgara í Suður-Líbanon

4. ágú. 2006

Nú hafa yfir þúsund fjölskyldur fengið neyðaraðstoð frá Alþjóða Rauða krossinum í átta þorpum suður af Tyre sem er nálægt landamærum Ísraels. Hver fjölskylda fékk matarpakka sem endist í viku ásamt hreinlætisvörum. Þann 29. júlí fengu 170 fjölskyldur sem búa í skólum í Kleia, þorpi nærri Marjayoun, sams konar matarpakka.

Í gær fór bílalest frá Alþjóða Rauða krossinum frá Aitaroun áleiðis til þorps nálægt Bent Jbeil og landamærum Ísraels þar sem dreifa átti hjálpargögnum og flytja á brott fólk sem var strandaglópar á svæðinu. Bílalestin varð hins vegar að snúa til baka vegna átaka. Önnur bílalest varð að snúa aftur á leið sinni til Marwahin vegna hernaðaraðgerða á svæðinu.

Í kjölfar mannskæðra sprenginga Ísraelsmanna í Kana, þar sem bygging sem hýsti óbreytta borgara varð fyrir beinni árás, hefur Rauði kross Líbanons og yfirvöld unnið sleitulaust við að ná bæði særðum og látnum úr rústunum. Hjálparstarfsmenn Rauða krossins hafa flutt slasaða á spítala í Tyre og fjarlægt fjölda líka.

Fyrsta skip Alþjóða Rauða krossins kom til Tyre síðdegis á sunnudag. Í því voru neyðarbirgðir á borð við tilbúnar máltíðir, hreinlætisvörur, eldunaráhöld, teppi, dýnur og tjöld. Rauði krossinn dreifir þessu á næstu dögum. Skipið hafði áður stoppað í Beirút og losað þar þúsundir tilbúinna máltíða og annarra nauðsynja. Fyrir skömmu fóru svo tveir bílfarmar frá Beirút til Marjayoun með yfir 500 matarpakka og 500 pakka af hreinlætisvörum.

Í bílalest sem fór til Beirút í dag voru tveir kælitrukkar með áhöldum til læknisaðstoðar sem Rauði kross Líbanon fékk gefins frá Rauða hálfmánanum í Katar. Í annarri bílalest, sem í eru 19 vörubílar, eru áhöld fyrir sjúkrahús sem Rauði hálfmáninn í Sádi-Arabíu mun reka á vettvangi. Í báðum þessum tilvikum flytur Alþjóði Rauði krossinn vörurnar til Líbanon og sér um að koma þeim í gegnum tollskoðun og öryggiskerfi landsins.