Hundrað hjálparlið vinna við rústabjörgun í Íran

4. apr. 2006

Jarðskjálftinn átti sér stað í Lorestan héraði þann 31. mars.
Rauði hálfmáninn í Íran hefur sent 100 hópa sérþjálfaðra björgunarmanna, ásamt átta hjálparhópum sem í eru m.a. tólf sporhundar (alls 622 manns) í Lorestan-héraðið þar sem þrír jarðskjálftar skóku fjallahéraðið milli borganna Doroud og Borujerd. Jarðskjálftinn átti sér stað þann 31. mars. Hóparnir aðstoða við að ná þeim sem lifðu skjálftann af úr húsarústum, hlúa að slösuðum og meta hjálparþörf þeirra sem lifðu af.

Samkvæmt upplýsingum Rauða hálfmánans í Íran hafa yfir 70 dáið af völdum skjálftans og rúmlega 1300 eru slasaðir. Óttast er að þessi tala eigi eftir að hækka eftir því sem líða tekur á björgunaraðgerðir. Um 330 þorp skemmdust mikið og af þeim er talið að um 70 hafi lagst í rúst.

Rauði hálfmáninn hefur einnig sent þrjár þyrlur í héraðið sem eru notaðar til að flytja hina slösuðu á sjúkrahús ásamt 85 sjúkrabílum, 35 litlum vörubílum og 29 stórum vörubílum.

Það sem hefur nú mestan forgang er að leita að fólki, bjarga eins mörgum og hægt er og tryggja jafnframt að þeir slösuðu fái læknisaðstoð. Þörfin er mest fyrir tjöld, teppi, mat og vatn fyrir þá sem misst hafa allt í skjálftunum.

Rauði hálfmáninn í Írak hefur þegar hafið dreifingu hjálpargagna. Meðal þess sem dreift er eru tæplega 3.000 tjöld, 1.300 pakkar af eldhúsáhöldum, um 10 þúsund ábreiður og 200 minni teppi, yfir 1.200 eldavélar og þúsundir flaska af ölkelduvatni og dósa af mat.

Það gerir stöðuna enn erfiðari að fjarkiptasamband og samgöngur liggja niðri og mörg fyrirtæki og stofnanir eru lokaðar vegna Nourouz, sem er nýárshátíð Írans.

Enn hefur ekki verið kallað eftir alþjóðlegri fjárhagsaðstoð. Alþjóða Rauði krossinn fylgist náið með stöðunni og er í viðbragðsstöðu ef á þarf að halda.