Eitt ár frá hörmungunum við Indlandshaf

13. jan. 2006

Yfir 100 fjölskyldur eru þegar komnar með framtíðarhúsnæði á Sri Lanka.
Á sunnudag er ár liðið frá þeim einstæða atburði er allar sjónvarpsstöðvar á Íslandi stóðu að sameiginlegri útsendingu til þess að safna fé fyrir fórnarlömb flóðbylgjunnar miklu í Asíu á annan dag jóla 2004. Að minnsta kosti 225 þúsund manns létust og milljónir misstu heimili sín og lífsviðurværi.  

Samtökin fimm sem tóku við fjármununum: Barnaheill - Save the Children, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði kross Íslands, SOS barnaþorp og UNICEF - Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hafa staðið fyrir gríðarlegu neyðar- og uppbyggingarstarfi á svæðinu, hvert í samstarfi við sín alþjóðasamtök og í samvinnu við félagasamtök á staðnum. Að veita mat, vatn, skjól, hjúkrun, bólusetningar, áfallahjálp og menntun er hluti af þessu starfi og ekki síður að útvega fólki báta, net, önnur tæki og áhöld eða þjálfun á nýju sviði sem hefur gert því kleift að sjá aftur fyrir sér. Hjálparsamtökin fimm kynna á heimasíðum sínum það starf sem hver og ein hafa unnið.

Einstaklingar á Íslandi áttu frumkvæði að söfnuninni. Fjölmiðlar gerðu hana mögulega í því umfangi sem varð. Fyrirtæki og einstaklingar lögðu henni lið. Úr varð stærsta söfnun sem efnt hefur verið til, til hjálpar erlendis. 122 milljónir söfnuðust. Hjálparsamtökin þakka landsmönnum vilja í verki og þakka traust til þess, að þau komi fjármununum til skila, til þeirra sem mesta hjálp þurfa. Verkið heldur áfram.

Nánar er hægt að lesa um starf Rauða krossins á flóðasvæðunum með því að smella hér.