Lífsskilyrði bætt í Bólivíu

3. okt. 2006

Eftir Shahnaz Radjy, sjálfboðaliða bólívíska Rauða krossins

Bærinn Reyes í Bólivíu og nágrenni hans varð illa úti í flóðum. Margir aðilar koma skipulega að því að bæta lífsskilyrði íbúanna.

Bærinn Reyes í Bólivíu, Rauði kross Bólivíu, Rauði kross Spánar og Mannréttindaskrifstofa Evrópuráðsins hafa eitt sameiginlegt markmið – að bæta lífsskilyrði þeirra sem urðu illa úti í flóðum í Reyes og nágrenni. Verkefni sem þessir aðilar standa að og stendur næstu sex mánuði hefur það ekki aðeins að markmiði að útvega 61 vatnsdælu til ákveðinna héraða, heldur einnig að tryggja góð félagsleg skilyrði í samfélaginu með margs konar vinnubúðum. Þar er kennd skyndihjálp og undirbúningur og forvarnir gegn hörmungum. Þannig þróast eiginleikar sem lifa munu lengur en verkefnið sjálft gerir.

Fleiri sjálfboðaliðar í hverri viku
Mauricio Rojas, sem hefur yfirumsjón með verkefninu, er 25 ára sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Bólivíu í La Paz. Rojas hefur verið sjálfboðaliði ungliðahreyfingarinnar í níu ár og vinnur nú á héraðsskrifstofu Rauða krossins í Reyes að verkefninu. Þegar deildinni í Reyes var komið á fót 2002 var í henni lítill hópur sjálfboðaliða sem hittist heima hjá hvert öðru. Síðustu fjögur ár hefur deildin vaxið mikið og rekur nú skrifstofu, er með ritara í fullu starfi og yfir 30 virka sjálfboðaliða á öllum aldri.

Sjálfboðamiðstöðin vex við hvern vikulegan fund og eru ungliðar stór hluti af þeim vexti. Ungt fólk í Reyes og þorpum í nágrenninu er mjög virkt og viljugt til að ganga til liðs við Rauða krossinn. Þeir sækja vinnubúðirnar vel og bjóða fram aðstoð sína þegar þörf er á. Þegar setja þarf saman yfir 1300 fötur af Rauða kross hjálpargögnum lítur fólk inn sem ekki er í Rauða krossinum og hjálpar til.

Kerfisbundin þátttaka ungliða
Stærsti ungliðatburðurinn á þessu ári hingað til var 18. ágúst. Þetta var stór uppákoma sem haldin var á aðaltorgi Reyes. Þar kynnti Rauði krossinn starfsemi sína og nemendur frá fimm skólum sýndu verkefni sem fjölluðu um vatn og hreinlæti. Dómnefnd mat verkefnin. Í henni var forseti Reyes-deildar Rauða krossins, borgarstjóri Reyes, fulltrúi fræðsluskrifstofunnar og verkfræðingur frá Sumaj Huasi, fyrirtækinu sem setur saman vatnsdælurnar sem notaðar eru í fyrrgreint verkefni. Hver skóli fékk skyndihjálpartæki, tvö teppi, börur og hreinsunaráhöld, þar á meðal sóp, moppu, svamp og rykkúst.

Allir fengu vitnisburð sem byggðist á mati dómnefndar. Þessi uppákoma var gott dæmi um þau áhrif sem Rauði krossinn hefur til að hvetja æskuna til þátttöku og vinna með samfélaginu og þá sem þar búa. Þeir sem voru viðstaddir urðu betur meðvitaðir um hvernig lifa eigi öruggara og heilbrigðara lífi.

Til að ungt fólk taki meiri þátt í starfinu hafa tvær vikur á þessu ári verið nýttar til vinnubúða í sjö skólum á svæðinu. Nemendurnir voru þjálfaðir í skyndihjálp, menntaðir í samfélagsfræðum og fræddir um hvernig þeir eigi að búa sig undir náttúruhamfarir. Einnig fá þeir ýmsar upplýsingar um Rauða krossinn.